Síðustu leikjum dagsins er lokið víðsvegar um Evrópu og komu nokkrir Íslendingar við sögu.
Í gríska boltanum spilaði Hörður Björgvin Magnússon sínar fyrstu keppnismínútur eftir afar slæm hnémeiðsli. Hörður hafði verið frá keppni í tæpa 20 mánuði vegna meiðslanna.
Hann fékk að spila síðasta stundarfjórðunginn í risaslag Panathinaikos á heimavelli gegn Olympiakos, sem vann 0-1.
Liðin mættust í síðasta leik gríska deildartímabilsins þar sem Olympiakos var löngu búið að tryggja sér titilinn. Panathinaikos endar í öðru sæti, sem veitir þátttökurétt í Meistaradeildina á næstu leiktíð.
Sverrir Ingi Ingason var á sínum stað í hjarta varnarinnar og lék allan leikinn.
Danijel Dejan Djuric og Logi Hrafn Róbertsson komu þá inn af bekknum í markalausu jafntefli í efstu deild í Króatíu.
Istra gerði þar jafntefli við Varazdin en bæði lið sigla lygnan sjó um miðja deild. Istra er með 44 stig eftir 34 umferðir.
Í Belgíu var Andri Lucas Guðjohnsen ónotaður varamaður er Gent steinlá á heimavelli gegn Royal Antwerp. Gent endar í sjötta sæti eftir hörmulegar lokaumferðir, en þetta var fimmta tap liðsins í röð í deildinni og jafnframt áttunda tapið í síðustu níu leikjum.
Í Danmörku lék Nóel Atli Arnórsson allan leikinn í varnarlínunni hjá Álaborg sem tapaði 3-1 gegn Viborg. AaB er í harðri fallbaráttu þegar tvær umferðir eru eftir af deildartímabilinu. Liðið situr í fallsæti sem stendur en gæti fengið að spila úrslitaleik á útivelli gegn Lyngby í lokaumferðinni.
FC Kaupmannahöfn og FC Midtjylland skildu þá jöfn í toppslagnum. Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í hóp hjá FCK á meðan Elías Rafn Ólafsson sat á bekknum hjá Midtjylland eftir að hafa misst byrjunarliðssætið sitt til Jonas Lössl fyrr í vor. Kaupmannahöfn er með eins stigs forystu í titilbaráttunni.
Að lokum var Adam Ingi Benediktsson varamarkvörður hjá Östersund í 0-1 tapi gegn Varberg í næstefstu deild í Svíþjóð. Östersund er um miðja deild með 11 stig eftir 7 umferðir.
Panathinaikos 0 - 1 Olympiakos
Istra 0 - 0 Varazdin
Gent 0 - 3 Royal Antwerp
Viborg 3 - 1 AaB
Kaupmannahöfn 1 - 1 Midtjylland
Östersund 0 - 1 Varberg
Athugasemdir