Arne Slot þjálfari Liverpool var sáttur með frammistöðu sinna manna eftir 2-2 jafntefli gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Leikmenn Arsenal stóðu heiðursvörð fyrir Englandsmeistarana sem komust í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik.
Gestirnir í liði Arsenal svöruðu þó fyrir sig með tveimur mörkum í síðari hálfleik.
„Þetta var frábær fótboltaleikur sem bauð upp á mikla skemmtun þó hann hafi ekki skipt miklu máli fyrir okkur á stöðutöflunni," sagði Slot. „Við mættum virkilega sterkum andstæðingum í dag og ég er ánægður með frammistöðu strákanna. Við komumst mjög nálægt því að vinna þennan leik."
Conor Bradley byrjaði leikinn í hægri bakverði og var baulað þegar Trent Alexander-Arnold, sem fer á frjálsri sölu til Real Madrid í sumar, var skipt inn. Hluti stuðningsmanna baulaði í hvert skipti sem Alexander-Arnold fékk boltann, en bakvörðurinn átti svo hluta af sökinni í jöfnunarmarki Arsenal á 70. mínútu.
„Conor Bradley spilaði mjög vel og ég ákvað að nota Trent útaf því að hann er góður fótboltamaður og getur ennþá hjálpað okkur að sigra fótboltaleiki eins og hann hefur oft gert áður. Starf mitt hér snýst um að sigra fótboltaleiki og til þess þarf ég að nota alla bestu leikmennina mína. Ég mun nota Trent í næstu leikjum ef mér finnst það auka sigurlíkurnar.
„Trent sýndi af hverju ég skipti honum inná þegar hann gaf stórkostlegar sendingar á lokakaflanum en við gátum ekki nýtt þær. Ef ég teldi utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif á hann þá myndi ég ekki velja hann, en hann sýndi það í dag að þetta hefur ekki áhrif.
„Það er enginn ánægður með að Trent sé að fara frá okkur og sumir ákváðu að lýsa gremju sinni með þessum hætti í dag. Allir eiga rétt á sinni skoðun og geta nýtt tjáningarfrelsið sitt með þessum hætti ef þeir kjósa."
Liðsfélagar Alexander-Arnold tjáðu sig að leikslokum og biðluðu til stuðningsmanna að baula ekki á leikmanninn, sem er uppalinn í Liverpool.
Það má því búast við að Trent Alexander-Arnold komi við sögu í síðustu deildarleikjum tímabilsins áður en hann flytur til Spánar.
Athugasemdir