Enski sóknarmaðurinn Mason Greenwood og félagar hans í franska liðinu Marseille spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir að liðið vann Le Havre, 3-1, í gær.
Greenwood hefur verið iðinn við kolann á fyrsta tímabili sínu með Marseille.
Hann skoraði annað mark Marseille í leiknum gegn Le Havre og mikilvægt var það, en mark hans kom liðinu í 2-1 forystu áður en Amine Gouiri gulltryggði sigurinn seint í uppbótartíma.
Marseille bókaði um leið sæti sitt í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.
Greenwood skoraði 19. deildarmark sitt og er hann aðeins tveimur mörkum á eftir Ousmane Dembele í baráttunni um markakóngstitilinn þegar ein umferð er eftir.
Enska blaðið Telegraph segir að frammistaða Greenwood hafi ekki farið framhjá stærri félögum.
Eins og var greint frá á dögunum vill Greenwood snúa aftur til Englands og eru tvö ensk úrvalsdeildarfélög alvarlega að íhuga að leggja fram tilboð í hann eftir tímabilið.
Hvort það sé gerlegt er hins vegar annað mál. Greenwood hefur ekki spilað leik á Englandi síðan í janúar 2022 en í sama mánuði var hann handtekinn vegna gruns um kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi í garð kærustu sinnar.
Harriet Robson, kærasta Greenwood, birti myndir af áverkum eftir Greenwood og hljóðupptöku þar sem leikmaðurinn þvingar hana til að eiga við sig samræði. Málið var fellt niður ári síðar þar sem það var ekki talið líklegt til sakfellingar.
Man Utd hafði plön um að fá Greenwood aftur inn í hópinn haustið 2023, en hætti við vegna viðbragða almennings og var því tekin ákvörðun um að lána hann til Getafe á Spáni áður en hann var seldur til Marseille ári síðar.
Athugasemdir