mið 13. maí 2020 10:00
Magnús Már Einarsson
Leikmenn beðnir um að horfa annað eftir tæklingu - Souness hlær
Graeme Souness.
Graeme Souness.
Mynd: Getty Images
Daily Telegraph hefur greint frá því að leikmenn í ensku úrvalsdeildinni verði beðnir um að horfa annað eftir tæklingar á andstæðinga sína til að minnka smithættu vegna kórónaveirunnar.

Sagt er að þetta sé eitt af þeim atriðum sem leikmenn verði beðnir um að hafa í huga ef deildin fer af stað á ný. Þar kemur einnig fram að leikmenn eigi ekki að hópast saman til að fagna mörkum.

Graeme Souness, sérfræðingur Sky, hefur hlegið að þessum ráðleggingum.

„Þetta er skrifað af einhverjum sem hefur aldrei spilað leikinn og skilur ekki leikinn. Áttu að tækla og snúa þér svo til hliðar? Hvað ef þú endar með boltann eftir tæklinguna? Þetta er það heimskulegasta sem ég hef heyrt varðandi endurkomu fótboltans," sagði Souness.

„Þegar þú spilar fótbolta í fremstu röð þá ertu bara að einbeita þér að næstu fimm sekúndum og því að komast í gegnum 90 mínútur. Þú hefur ekki tíma til að hugsa um neitt annað.
Hornspyrnur, aukaspyrnur...þú verður að horfa á manninn. Það breytist ekki. Varnarmenn fá greitt fyrir að halda boltanum frá markinu og það er einbeitingin þeirra."

„Það eina sem gæti breyst er fögnin. Annað getur ekki breyst. Þú ert staddur í augnablikinu."

Athugasemdir
banner
banner