Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 14. desember 2021 13:30
Magnús Valur Böðvarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Um keppnisgervigras - Sorglegt með ÍBV
Magnús Valur Böðvarsson
Magnús Valur Böðvarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Hvað verður um þessi 100 tonn af plasti ?
Hvað verður um þessi 100 tonn af plasti ?
Mynd: Bö
Við hendum þessu til Sorpu sem mokar holu og grefur yfir þetta. Umhverfisverndin svo sannarlega ekki með okkur þarna.
Við hendum þessu til Sorpu sem mokar holu og grefur yfir þetta. Umhverfisverndin svo sannarlega ekki með okkur þarna.
Mynd: Bö
Boltarúll mælt
Boltarúll mælt
Mynd: Bö
Höfundur að störfum á keppnisvelli KR.
Höfundur að störfum á keppnisvelli KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Uppbygging knattspyrnuvalla á Íslandi hefur á undanförnum 15 árum verið á einn veg. Plast. Nánar tiltekið gervigras. Núna nýjast voru Vestmannaeyjar og Grindavík að bætast við þann lista sem ætla færa sig til þess vegar að setja keppnisvelli sína á gervigras. Margir hafa litið á greinarhöfund sem andstæðing gervigrassins en svo er alls ekki enda þurfum við gervigras til þess að geta æft allan ársins hring.

Hinsvegar er það svo að ég er algjörlega mótfallinn því að setja gervigras á keppnisvellina. Þar er í raun og veru gríðarlegur munur þarna á. Hver er sá munur og hvaða spurningar geta vaknað upp?

Nær allir sem vilja algjörlega innleiða allt landið að gervigrasvöllum nefna meiri notkun og að það nýtist öllum iðkenndum. Satt, það getur gert það í ákveðnum tilfellum en þá kemur upp spurningin, fyrir hvað er völlurinn ætlaður og stærð félagsins til að líta. Hjá félagi sem á sér drauma á að fara í Evrópukeppni á einhverjum tímapunkti er þetta hinsvegar nær algjörlega fáránleg hugmynd sem og í litlum bæjarfélögum með undir 3000 íbúa og skal ég útskýra það nánar.

Keppnisgervigras
Fyrir félög sem stefna að því að fara í Evrópukeppnir eru kröfur um gervigras miklar. Þar þarf gervigrasið að vera í fyrsta lagi frá framleiðanda sem vottað er af FIFA. Uppfylla kröfur um boltarúll, boltaskopp, viðhald, magn innfylliefna að vera ákveðið sem dæmi séu tekin og stóra atriðið sem fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir er NOTKUN. FIFA vottuð gervigrös eru tvenns konar. FIFA QUALITY og FIFA QUALITY PRO.

Munurinn á þessum tveim grösum er að FIFA Quality pro grasið líkir meira eftir alvöru grasvelli heldur en Quality grasið en gallinn er hinsvegar að hann þolir í raun minni notkun. Notkun á FIFA Quality pro gervigrasvelli má notkun vallarins ekki vera meiri en 20 klst á viku. Sem gerir það að verkum að dagsnotkun á vellinum eru undir 3 klst á dag. Nýtist það öllum okkar iðkenndum? Svarið er NEI.

Ætlum við að fylgja þessu eftir þá er þetta einungis að nýtast meistaraflokkum félagsins. Þá skal taka skýrt fram að 1 klst notkun miðast einnig við 22 leikmenn inná fullri stærð. Oftar en ekki erum við að sjá æfingar yngri flokka til að mynda með 40-50 börn og unglinga inná vellinum á sama tíma þá er til að mynda eins klst æfing með þann fjölda á við 2 klst notkun.

JÁ líftími gervigrass miðast við notkunarstundir ekki hversu gamalt gervigrasið er. Gervigras er alltaf best þegar það er nýtt og getur aldrei orðið betra en akkúrat þá og fer stöðugt niður á við eftir því sem notkunarstundum fjölgar þangað til því þarf að skipta út.

Í langflestum tilfellum á Íslandi er engin þörf á að setja FIFA Quality pro gervigras á vellina og vera einungis með FIFA Quality gervigras. Þetta á við um þau félög sem sjá sér litlar eða engar líkur á að komast í Evrópukeppni eða spila yngri landsleiki og gæti verið hentugra fyrir þau félög. Notkunarstundir á Fifa Quality gervigrasi er miðað við 40-60 klst notkun á viku og gæti nýst öllum iðkenndum félaganna.

Dalvík er gríðarlega gott dæmi um vel heppnaða breytingu um skipti enda bæjarfélagið lítið, nýtingin góð og ekki of mikil, liðið ólíklega að fara í Evrópukeppnir eða komast í efstu deild og svo framvegis. Hinsvegar er góð tíð akkurat núna og sé bæjarfélagið ekki með ákveðin plön um viðhald, og setja peninga til hliðar því það kemur sá tími að skipta þurfi um gervigrasið með tilheyrandi kostnaði.

Kostnaður við að skipta um gervigras er ca. 80 milljónir króna. Það getur verið þungur baggi fyrir lítið bæjarfélag séu menn ekki búnir að gera ráðstafanir enda mikilvægt að skipta um gervigras á ca. 5 ára fresti. Þar sem notkunin er ásættanleg samanber á Dalvík er hægt að teygja þetta aftur um 1-2 ár standi bæjarfélagið höllum fæti á þeim tímapunkti en með þeim fórnarkostnaði að því verra sem gervigras verður því meira eykst meiðslahætta.

Fyrir lítil bæjarfélög getur 80 milljónir verið gríðarlega þungur baggi og því spurning hvort það sé þess virði að hafa keppnisvöllinn sinn með gervigrasi þegar þú gætir verið með grasvöll í bæjarfélaginu sem keppnisvöll og haft æfingavöllinn þinn sem í ákveðnum tilfellum gæti nýst sem keppnisvöllum þegar grasvöllurinn er ekki orðinn leikhæfur.

Það eitt að fresta skiptum á gervigrasi er einfaldlega ekki í boði fyrir félögin sem eru í Evrópukeppnum enda þarf matsmaður FIFA að koma á hverju ári og taka út völlinn, taka hins ýmsu próf á völlunum um hvort vellirnir standist ennþá þessar ströngu kröfur sem FIFA QUALITY próf hafa. Geri þær það ekki, þarf að skipta strax á vellinum svo löglegt sé að spila þar eða þá að spila á öðrum velli sem stenst þessar kröfur. Það er ekki endalaust hægt að treysta á undanþágur.

Umhverfið
Aðrir hlutir sem þarf að hafa í huga og hafa verið í algjöru aukahlutverki í umræðunni um knattspyrnuvelli eru umhverfismálin. Hvað gerist þegar skipta þarf gervigrasvelli út?Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar má sjá gervigrasvöll sem fjarlægður hefur verið til að hægt sé að setja nýjann.
Hvað verður um þessi 100 tonn af plasti sem jafnast á við 1/3 af árlegri plastpokanotkun íslendinga (2018) - líkegra hærri prósenta í dag?

Einungis eitt fyrirtæki í heiminum tekur að sér að endurvinna gervigras (ekki gúmmí infill) og kostar það mikla peninga að koma gervigrasinu í förgun til þess fyrirtækis. (6-10 milljónir) Erum við að gera það það? Nei að sjálfsögðu ekki. Þessi 100 tonn af gúmmíkurli og plasti. Hvað gerum við Íslendingar? Við hendum þessu til Sorpu sem mokar holu og grefur yfir þetta. Umhverfisverndin svo sannarlega ekki með okkur þarna.

Umhverfismál eru stöðugt í framþróun í Evrópu og er Evrópusambandið að reyna mest allt sem það getur til að vinna gegn plasti og plastnotkun. Meðal annars er stefnt að því að banna allt mikróplast frá árinu 2029. Flest allt tengt gervigrasi telst sem mikróplast og þessi þróun gæti valdið okkur miklum vandræðum.

Langt á eftir
Við sem erum eldri en 30 ára og erum alin upp við að horfa á ensku knattspyrnuna virðumst alltaf miða okkar knattspyrnuvelli við þeirra velli. Við munum þann tíma að leikir í desember – febrúar þar sem vellirnir voru moldarflag og gjörsamlega í hræðilegu ástandi og enginn sagði neitt. Framþróun á uppbyggingum valla og viðhaldi þeirra hefur gjörbreyst síðan þá og virðast sífellt betri og betri og vellir í ensku úrvaldsdeildinni nánast alltaf uppá tíu enda fylgdu menn tækninni og settu pening í uppbyggingu valla og með menntað starfsfólk til að sjá um viðhald vallanna.

Á flest öllum fótboltavöllum í efstu 4 deildum á Englandi eru vellir uppbyggðir til fótboltaiðkunnar, þeir höndla mikla rigningu, eru upphitaðir, upplýstir og oftar en ekki með vallarstjóra sem eru menntaðir í þeim fræðum að hugsa um vellina. Mikil bæting hefur átt sér í stað á viðhaldi á grasvöllum á Íslandi þrátt fyrir að tímabilið hafi ítrekað verið flýtt og lengt án þess að nokkrar framkvæmdir hafa verið gerðar á uppbyggingu vallana, þeas undirlaginu.

Í dag er enginn völlur á landinu sem er byggður eftir USGA staðlinum, sem inniheldur undirhita. 90% gervigrasvalla á Íslandi er upphitaðir á sama tíma nær engir grasvellir. Á Englandi sem er vetrardeild er meðalhiti 1-5 gráður á celsius í nóvember til mars þegar stærsti hluti tímabilsins fer fram. Á Íslandi þegar tímabilið er í gangi er meðalhiti á landinu 5-10 gráður meðan á okkar tímabili stendur. Flest allir knattspyrnuvellir á Englandi eru upphitaðir.

Að lokum
Það særir mig innilega að bæjaryfirvöld í Grindavík og Vestmannaeyjum skyldu taka þessar ákvarðanir að setja gervigras á aðalvelli liðanna enda tveir af þeim best stöddu bæjarfélögum til að halda úti grasvelli. Vellirnir þeirra hafa oftar enn ekki verið fyrr tílbúnir og ef farið væri í smávægilegar lagfæringar til að hjálpa drenun vallanna væri þetta ekki einu sinni umræðuefni.

Sorglegra finnst mér vera með Vestmannaeyjar sér í lagi því þar er klúbbur með mikla sögu og hefur reglulega komið sér í Evrópukeppnir. Að setja gervigras á aðalvöll sinn er fáránlegt þegar þeir gætu sett það á æfingavöll hjá sér.

Í Eyjum eru haldin stærstu knattspyrnumót fyrir yngri iðkenndur sem finnast á landinu. Ef þú reiknar út notkunarstundirnar sem færu í notkun á gervigrasvellinum þegar þessi mót eru haldin eru þær fljótar að sprengja notkunarskala gervigrasvalla og verða talsvert fljótari að eyðileggjast en gengur og gerist sem hefur einungis kostnaðarlegar afleiðingar í för með sér í skiptingu þeirra í stað þess að setja gervigras á æfingavöll hjá sér, setja FIFA quality gras sem þolir meira álag og ekki er eins brýn þörf á að skipta því út.

Á seinustu 20 árum hefur ekki verið byggður einn vel uppbyggður grasvöllur á Íslandi sem fylgir helstu nútímakröfum. Við eigum engan völl sem uppfyllir standard 3 eða 4 kröfur keppnisvalla á Íslandi (Laugardalsvöllur á undanþágu) Á sama tíma hafa verið byggðir tugir gervigrasvalla, þeim skipt út með tilheyrandi kostnaði og umhverfisspjöllum og flest allir eftir nútíma kröfum. Þá ein athyglsiverð staðreynd í lokin er hversu miklu íslenska deildin hefur fallið niður eftir því sem fleiri keppnisvellir hafa verið settir á gervigras. Tilviljun? Mín skoðun er nei.

Virðingarfyllst

Magnús Valur Böðvarsson

Vallarstjóri KR
Athugasemdir
banner
banner
banner