banner
   mið 15. júlí 2020 15:45
Magnús Már Einarsson
Arnar Grétars: Þetta gerðist einn, tveir og bingó
Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
„Aðdragandinn var eins stuttur og þeir gerast. Ég heyrði í þeim í gær. Þetta gerðist einn, tveir og bingó," sagði Arnar Grétarsson við Fótbolta.net í dag en hann var í dag ráðinn þjálfari KA.

Arnar tekur við af Óla Stefáni Flóventssyni sem hefur stýrt KA í tæplega tvö ár.

„Ég tók ekki langan tíma í að hugsa mig um. Þetta er spennandi dæmi. Sem betur fer er ég búinn að fylgjast aðeins með. Ég er búinn að vera hjá Sportveitunni að kommenta á leikina og ég er búinn að sjá nokkra leiki. Það er ekki beint með þjálfaraugum heldur er maður að horfa á þetta með fréttamanna augum. Þegar maður horfir á þitt eigið lið eða andstæðinga þá er það aðeins öðruvísi."

„Núna þarf maður að hella sér í vinnu og það er fínt. Mótið er byrjað og það eru sex umferðir búnar. Við eigum leik á laugardaginn og svo aftur á miðvikudag. Það tekur örugglega smá tíma fyrir mig að kynnast hópnum og hópnum að kynnast mér en vonandi tekur það eins stuttan og hægt er. Ég mun koma til með að nýta aðstoðarþjálfarana og teymið í kringum mig. Ég hef alltaf gert það og það verður sérstaklega núna þegar maður er að detta inn á nýju tímabili. Maður þarf að sjá hvernig þeir sjá hlutina og hvernig þeir sjá framhaldið."


KA er með þrjú stig í ellefta sæti eftir fimm leiki en Arnar vonast til að koma liðinu upp töfluna á næstunni.

„Ég er bjartsýnn á það. Ég tók að mér verkefni í Belgíu (hjá Roeselare) þar sem mörgum fannst ég vera galinn. Fyrsta mánuðinn hugsaði maður oft hvað maður væri að gera. Það er hægt að gera ótrúlega hluti. Oft á tíðum færðu ekki tímann til þess en ég er spenntur. Ég veit að KA er með marga fína leikmenn og það þarf að fá vinna leiki, búa til stemningu og reyna að fá það besta úr mannskapnum. Þeir hafa oft á tíðum spilað ágætan fótbolta það sem af er en það hefur vantað lítið upp á."

„Það er leiðinlegt þegar þjálfarar eru reknir snemma á móti og manni þykir þetta sárt fyrir hönd Óla. Hann er topp drengur og flottur þjálfari. Oft á tíðum hefur þetta ekkert með þjálfarann að gera. Þú getur verið besti þjálfarinn en þú nærð bara ekki árangri. Þá er yfirleitt ein leið sem menn velja og það er að skipta þjálfaranum út,"
sagði Arnar.

Arnar samdi út tímabilið til að byrja með en kemur til greina að vera lengur á Akureyri? „Við ætlum að skoða það þegar nær dregur. Ég útiloka ekki neitt í þeim efnum. Við ætlum að byrja á þessu. Við vorum sammála um það. Svo tökum við næstu skref í framhaldinu," sagði Arnar.

Sjá einnig:
Arnar Grétarsson tekinn við KA (Staðfest)
Athugasemdir
banner
banner
banner