banner
   fös 15. október 2021 22:53
Brynjar Ingi Erluson
Woodgate: Lifa í draumalandi ef þeir halda að bestu leikmenn heims mæti
Jonathan Woodgate
Jonathan Woodgate
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn lifa í draumalandi ef þeir halda að Kylian Mbappe og aðrir heimsklassaleikmenn mæti til félagsins
Stuðningsmenn lifa í draumalandi ef þeir halda að Kylian Mbappe og aðrir heimsklassaleikmenn mæti til félagsins
Mynd: Getty Images
Jonathan Woodgate, fyrrum leikmaður Newcastle United og enska landsliðsins, biður stuðningsmenn félagsins um smá jarðtengingu er hann ræddi um eigendaskiptin í viðtali við útvarp BBC í dag.

Krónprinsinn í Sádi Arabíu, Mohamed Bin Balman, eignaðist Newcastle á dögunum fyrir 300 milljónir punda en það berast nú reglulega fréttir af mögulegum félagaskiptum félagsins.

Stuðningsmenn eru með miklar væntingar og er talið að félagið ætli sér að eyða háum fjárhæðum í leikmenn í næstu gluggum en Woodgate segir að þeir verði þó að bíða þolinmóðir.

„Ef einhver leikmaður er með alvöru gæði þá fer hann til Real Madrid, Barcelona eða Manchester United. Þetta er ekki vanvirðing við Newcastle en sá leikmaður er aldrei að fara þangað," sagði Woodgate.

„Það er alveg nógu erfitt að reyna að fá leikmenn í norð-austrið. Ég þekki það af eigin reynslu eftir að hafa spilað fyrir Newcastle, Middlesbrough og Leeds að það er erfitt að fá leikmenn þangað."

„Allir bestu leikmennirnir eiga pening en þeir vilja vinna bikara og spila í úrslitaleikjum í Evrópukeppni. Þeir vilja vinna HM og vilja ekki koma til Newcastle. Þetta er ekki illa meint en ég hef rétt fyrir mér."

„Alan Shearer var heimsklassaleikmaður og skrifaði undir hjá Newcastle af því hann er frá Newcastle. Hann vildi upplifa æskudrauminn. Það eru ekki margir aðrir heimsklassaleikmenn sem myndu spila fyrir þetta félag."

„Þeir stuðningsmenn sem halda það að Kylian Mbappe og allir þessir leikmenn séu á leiðinni lifa einfaldlega í draumalandi. Þú þarft að byggja liðið og það er ekki auðvelt. Þú getur ekki bara keypt árangur, það virkar ekki þannig í þessari deild,"
sagði hann ennfremur.

Tekur 10 til 12 ár

Woodgate telur að þetta taki sinn tíma og að félagið þurfi fyrst að vinna deildabikar eða FA-bikarinn áður en það stefnir að því að vinna úrvals- eða Meistaradeild.

„Eigendurnir munu þurfa að taka sér tíma í næstu skref því þetta er risastórt skref fyrir félagið. Þeir munu skoða alla bestu þjálfarana hvort sem hann er enskur eða erlendur. Þeir hafa peningana til að eyða og allir þjálfarar vilja það."

„Þeir verða að taka réttu ákvörðunina. Þetta mun taka 10 til 12 ár og fyrst þarf liðið að vinna FA-bikarinn eða deildabikarinn áður en þeir vinna ensku úrvalsdeildina eða Meistaradeildina,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner