Norski framherjinn Erling Haaland er vafalaust einn af allra bestu framherjum heims þar sem hann er að raða inn mörkum með norska landsliðinu og Manchester City.
Tölfræði hans á nánast öllum sviðum vekur mikla athygli og er rangstöðutölfræðin ekki frábrugðin.
Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að Haaland er ótrúlega sjaldan rangstæður miðað við kollega sína sem hafa verið að raða inn mörkum á undanförnum árum.
Haaland hefur aðeins 18 sinnum verið flaggaður rangstæður í 108 deildarleikjum frá tímabilinu 2022/23 og er Svíinn Alexander Isak næsti maður á lista, með 42 rangstöður í 92 deildarleikjum.
Þegar farið er á botn listans má finna menn á borð við Kylian Mbappé, sem hefur 111 sinnum verið flaggaður rangstæður í 109 deildarleikjum þrátt fyrir að búa yfir gífurlegum hraða, og Cristiano Ronaldo, sem á 143 rangstöður í 95 leikjum.
Victor Osimhen, Robert Lewandowski, Marcus Thuram, Harry Kane, Serhou Guirassy og Lautaro Martínez eru einnig á listanum.
Athugasemdir



