„Mjög þroskuð frammistaða. Fyrri hálfleikur var mjög góður með boltann. Þeir komu aðeins ofar á okkur í seinni hálfleik en við náðum að loka þessu," sagði landsliðsmaðurinn Ísak Bergmann Jóhanesson eftir sigur Íslands gegn Aserbaísjan í undankeppni HM í kvöld.
Ísak lagði upp fyrra markið á Albert Guðmundsson með frábærri sendingu inn á teiginn.
„Ég sagði við hann í morgun að ég ætla reyna finna hann eins og ég get. Það er svo auðvelt að spila með Alberti, hann finnur alltaf svæði og ég reyni að finna hann í lappir. Hann gerir mitt auðveldara," sagði Ísak.
Það er ljóst að Ísland mætir Úkraínu í Póllandi um helgina í úrslitaleik um sæti í umspili fyrir HM.
„Arnar sagði fyrir leikinn að við þyrftum ekki að vinna þennan leik fimm til sex núll eins og fyrri leikinn. Bara koma hingað og taka þrjá punkta og fara svo til Póllands þar sem við spilum við Úkraínu," sagði Ísak.
„Við vorum þarna árið 2024 í úrslitaleik á móti Úkraínu. Það er skrifað í skýin að við fáum þennan úrslitaleik. Vonandi klárum við þetta núna."
Athugasemdir






















