Steve Clarke landsliðsþjálfari Skotlands segir að hver einasti leikmaður þurfi að vera upp á sitt besta til að ráða við Grikkland í undankeppni HM í kvöld.
Skotar heimsækja Grikkland í kvöld áður en þeir taka á móti Danmörku í mögulegum úrslitaleik um toppsæti C-riðils.
Danir og Skotar deila toppsætinu með 10 stig eftir 4 umferðir og eru þjóðirnar öruggar með efstu tvö sætin í riðlinum, en aðeins ein þjóð kemst beint á HM.
Grikkir eru einungis að spila upp á stoltið þar sem þeir eiga ekki lengur möguleika á toppsætunum.
„Ef við viljum vinna Grikki þá þurfum við meira frá hverjum einasta leikmanni. Strákarnir verða að vera upp á sitt besta, annars hefst þetta ekki hjá okkur," sagði Clarke á fréttamannafundi.
Hann er að reyna að koma Skotum á lokamót HM í fyrsta sinn í tæplega 30 ár, eða síðan 1998.
„Strákarnir hafa verið góðir á æfingum í vikunni. Þeir eru búnir að sanka að sér mikilli reynslu og ættu að vera klárir í slaginn gegn Grikkjum. Þeir átta sig á mikilvægi leikjanna sem eru framundan."
Clarke vill sjá betri frammistöðu heldur en í heppilegum 2-1 sigri gegn Belarús í síðustu umferð. „Þetta var lélegur leikur hjá okkur en það getur gerst í fótbolta. Á hliðarlínunni var ég smeykur um að við myndum tapa stigum en sem betur fer tókst strákunum að sigra. Við verðum að vera betri í næsta leik. Við þurfum jafntefli eða sigur gegn Grikkjum til þess að geta barist um toppsætið í lokaumferðinni. Við erum bara að einbeita okkur að einum leik í einu."
Ivan Jovanovic landsliðsþjálfari Grikkja vill sjá sína menn sigra gegn Skotum. Hann telur Grikkland vera með sterkara landslið heldur en Skotland þrátt fyrir hörmulegt gengi í undankeppninni.
Athugasemdir



