Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   lau 15. nóvember 2025 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Jesus ósáttur með lygar fréttamanna
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Enskir fjölmiðlar hafa fjallað um framtíð brasilíska framherjans Gabriel Jesus að undanförnu og meðal annars sagt hann vera á förum frá Arsenal í janúarglugganum.

Jesus er sterklega orðaður við endurkomu til Palmeiras í heimalandinu en leikmaðurinn sjálfur ákvað að tjá sig um orðróminn.

Jesus hefur verið að glíma við mikið af meiðslum að undanförnu en þegar hann hefur verið liðtækur þá hefur hann sýnt flotta takta með Arsenal. Hann nálgast endurkomu á völlinn eftir 10 mánuði frá keppni vegna krossbandsslita sem hann lenti í síðasta janúar.

Hann er líklega kominn aftar í goggunarröðina hjá Arsenal eftir kaup félagsins á Viktor Gyökeres, en Kai Havertz er einnig að berjast um framherjastöðuna.

„Ég er ekki búinn að ræða við neitt annað félag og ég hef áður sagt að ég vil snúa aftur til Palmeiras. Ég vil fara aftur til Palmeiras og Palmeiras vill fá mig aftur til sín. Ég er samt ekki að fara strax," segir Jesus.

„Þegar mér líður eins og rétti tíminn sé runninn að garði þá mun ég skipta um félag, þetta er ákvörðun sem ég mun taka í samráði við stjórnendur Arsenal. Þetta er ekki ákvörðun sem verður tekin núna, ég er búinn að vera meiddur í níu mánuði og þarf að berjast til að komast aftur inn í liðið. Þessi orðrómur er byggður á lygum fréttamanna."

Jesus er 28 ára gamall og með eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við Arsenal.

Hann hefur í heildina komið að 46 mörkum í 96 leikjum á þremur árum hjá félaginu. Hann á 19 mörk í 64 landsleikjum með Brasilíu.
Athugasemdir
banner
banner