Edin Terzic fyrrum þjálfari Borussia Dortmund tjáði sig meðal annars um Florian Wirtz og Jadon Sancho í viðtali við Sky Sports í gær.
Terzic þjálfaði Sancho hjá Dortmund og þekkir til Wirtz eftir að hafa mætt honum í þýska boltanum.
„Með Wirtz er eðlilegt að þetta taki smá tíma. Þetta er í fyrsta sinn sem hann skiptir um félag eða flytur til nýs lands, en ég er samt viss um að hann muni sýna sitt rétta andlit bráðlega útaf því að hann er ótrúlega gæðamikill leikmaður. Við verðum að sýna þolinmæði en ég skil að verðmiðinn hjálpar ekki," sagði Terzic, sem tók svo Erling Haaland sem dæmi um leikmann sem gerði vel bæði í þýsku deildinni og þeirri ensku.
„Fyrir fólk sem segir að stökkið úr þýsku deildinni yfir í þá ensku sé alltof stórt þá spyr ég af hverju gerðist þetta ekki líka fyrir Erling Haaland? Það tók hann enga stund að aðlagast."
Terzic ræddi næst um Sancho og Jude Bellingham sem gerðu frábæra hluti undir hans stjórn hjá Dortmund. Það slokknaði svo á Sancho þegar hann sneri aftur til Englands og er hann núna varaskeifa hjá Aston Villa á upphafi tímabils og á enn eftir að skora eða leggja upp.
„Í fyrsta lagi þá er Jadon sérstakur leikmaður, hann getur gert gæfumuninn. Ef maður ætlar að búast við að hann geri sérstaka hluti á vellinum þá verður maður að veita honum sérstaka meðferð utan vallar. Ef ég ber hann saman við Jude þá er Jude leikmaður sem maður þarf alltaf að halda hungruðum til að ná því besta úr honum. Með Jadon þá þarf maður alltaf að halda honum brosandi, maður þarf að höfða til barnsins sem býr innra með honum."
Athugasemdir



