Andri Vilbergsson yfirþjálfari 2-4. flokks hjá Breiðabliki hrósaði leikmanninum í hástert í samtali við Tipsbladet.
„Bæði Mydtjylland og Nordsjælland hafa mikinn áhuga á honum og hafa fylgst með honum í dálítinn tíma. Það er samt sem áður erfitt að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér. Liðin tala vel um hann og við munum fá skýrslur frá Nordsjælland og Midtjylland og svo metum við stöðuna frá því.“
Arnar Bjarki, sem er stór og stæðilegur sóknarmaður, er fæddur árið 2010 og æfir með U17 liði Midtjylland.
„Hann er góður í uppspili en er líka góður markaskorari. Hann hefur spilað margar stöður á sínum stutta ferli þannig að það er ekki hægt að setja hann í neitt ákveðið box.
Hann er stór þannig að ég held að dönsku félögin sjái hann fyrir sér sem framherja. Hann hefur líka stækkað mikið á síðustu árum og hann hefur þurft að venjast því. Þess vegna er hann fyrst núna að finna sig í sínum líkama og sínu líkamlega atgervi,“ sagði Andri.
Arnar Bjarki er leikmaður 3. flokks Breiðabliks sem varð Íslands- og bikarmeistari í sumar og skoraði hann 15 mörk í 20 leikjum yfir tímabilið. Hann hefur þegar spilað sex leiki fyrir unglingalandsliðin, þrjá fyrir U15 og þrjá fyrir U16 og skorað tvö mörk í leikjunum þremur með U16.
Arnar fagnaði upp á fimmtán ára afmælið í gær, en hann þarf að bíða eftir sextán ára afmælisdeginum svo að hann geti haldið út varanlega til Danmerkur vegna reglna UEFA.
Arnar er sonur Gunnleifs Vignis Gunnleifssonar og bróðir Gunnleifs Orra Gunnleifssonar, sem hefur brotist inn í lið meistaraflokks Breiðabliks og verið í yngri landsliðum Íslands.




