Sparkspekingurinn Wayne Rooney segist sjá eftir ummælum sem hann lét falla um Virgil van Dijk, fyrirliða Liverpool, á dögunum, en að það sé samt augljóst að eitthvað sé að hjá Englandsmeisturunum.
Eftir slaka frammistöðu þar sem Liverpool tapaði fjórum deildarleikjum í röð sagði Rooney að Van Dijk væri búinn að slaka full mikið á síðan hann framlengdi samning sinn við félagið.
Þessi ummæli féllu ekki í kramið hjá Van Dijk sem skaut til baka á Rooney.
Þeir mættust síðan í settinu á dögunum þar andrúmsloftið virkaði mjög rafmagnað á milli þeirra, en Rooney sagði í þættinum OverLap að ummæli hans um samninginn hafi verið full gróft af hans hálfu.
„Núna starfa ég við það að segja mínar skoðanir og ég vil meina það að ég sé hreinskilinn varðandi það hvað mér finnst. Það eina það sem mér fannst ég hafa farið aðeins yfir strikið er að segja að hann hafi slakað á eftir að hafa skrifað undir nýjan samning. Það er mjög stór ásökun að segja og kannski hafði ég rangt fyrir mér, en ef þú horfir á frammistöðuna og það sem við höfum séð frá Van Dijk þá finnst mér hann ekki vera á sama stigi á þessu tímabili.“
„Eins og ég sagði þá er ég viss um að fyrirliðinn sé að ræða við leikmennina, bjóða þeim út að borða sem hann sagði sjálfur frá. Ef honum fannst hann þurfa að gera það þá er alveg augljóst að það sé eitthvað sem er ekki í lagi þarna.“
„Sem meistari getur þú ekki tapað fjórum leikjum í röð. Það vakna strax upp spurningar ef þú tapar einum leik en ef þú tapar fjórum í röð þá er eitthvað að. Ég held að sem leikmaður máttu ekki pæla of mikið í hávaðanum fyrir utan. Þetta er starf okkar spekinga en þú sem leikmaður þarft að einbeita þér að leiknum. Ef ég væri ungur leikmaður þá myndi ég horfa á Van Dijk og hvernig hann hefur brugðist við þessu. Hvernig mun þetta hjálpa þeim? Þú verður bara að einbeita þér að leiknum og tala um þessi mál innanbúðar.“
„Ég hef fengið töluvert verri gagnrýni en það sem ég sagði um Van Dijk, bæði innan sem utan vallar. Fólk mun tala en auðvitað getur það gerst að þú takir gagnrýni sumra alvarlegra en hjá öðrum, en talaðu á vellinum. Það er það eina sem hann þarf að gera. Ég hef hrósað Van Dijk og frammistöðu hans, og hversu góður hann hefur verið, en ef þú ert Englandsmeistari og fyrirliði Liverpool og liðið ekki að spila vel þá verður eitthvað um gagnrýni.“
„Við gerðum þetta við Cristiano Ronaldo þar sem hann var ekki að verjast eins mikið og við vildum. Við lögðum meira á okkur, en þetta er erfiður leikur og þú ert að spila gegn toppliði. Þú öskrar á leikmennina til að bakka og hjálpa til. Það er það sem ég meinti þegar ég talaði um leiðtogahæfileika. Þú þarft að skilja leikinn sem þú ert að spila og mikilvægi hans,“ sagði Rooney.
Athugasemdir




