Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   fös 16. febrúar 2018 18:30
Magnús Már Einarsson
Heimir um titilinn 2008: Fókus Keflavíkur var á Siim og pizzaveislu
Heimir fagnar með stuðningsmönnum FH eftir ævintýralegan Íslandsmeistaratitil liðsins árið 2008.
Heimir fagnar með stuðningsmönnum FH eftir ævintýralegan Íslandsmeistaratitil liðsins árið 2008.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi var í banni í lokaumferðinni eftir dansinn gegn Keflavík.
Tryggvi var í banni í lokaumferðinni eftir dansinn gegn Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dennis Siim átti að vera í banni en spilaði gegn Keflavík.
Dennis Siim átti að vera í banni en spilaði gegn Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjónsson er fyrsti gesturinn hjá Gunnlaugi Jónssyni í þættinum Návígi en síðari hluti þáttarins birtist í dag. Þar rifjar Heimir meðal annars um ævintýralegan Íslandsmeistaratitil á hans fyrsta ári sem aðalþjálfari árið 2008.

Smelltu hér til að hlusta á Heimi Guðjóns í Návígi - Hluti 2

Eftir 4-1 tap gegn Fram í 20. umferð var FH átta stigum á eftir Keflavík. FH átti þó leik til góða og gat því ennþá unnið titilinn en til þess þurfti allt að ganga upp.

„Við höfðum trú á þessu allan tímann. Við vissum að það var langt síðan Keflavík hafði orðið Íslandsmeistari, þeir hafa ekki orðið meistarar síðan Guðni Kjartansson og fleiri voru með þeim. Pressan var svolítið á þeim," sagði Heimir í Návíginu.

Dansinn hjá Tryggva pirraði Keflvíkinga
Í 21. umferðinni mættust FH og Keflavík á Kaplakrikavelli. FH komst í 2-0 áður en Magnús Sverrir Þorsteinsson jafnaði fyrir Keflavík og þau úrslit hefðu tryggt liðinu titilinn. Atli Viðar Björnsson skoraði hins vegar sigurmark FH undir lokin.

Tryggvi Guðmundsson lagði upp sigurmarkið og fagnaði með því að dansa fyrir framan leikmenn Keflavíkur. Tryggvi fékk sitt fjórða gula spjald á tímabilinu fyrir dansinn og var í banni í lokaumferðinni gegn Fylki en leikmenn Keflavíkur voru brjálaðir yfir dansi hans.

„Fagnið hans Tryggva virtist fara óendanlega í taugarnar á leikmönnum Keflavíkur. Eftir á að hyggja var þetta mjög klókt hjá Tryggva Guðmundssyni enda er hann frekar klókur fótboltamaður. Ég held að þetta hafi verið meðvitað þó að við höfum ekki rætt þetta," sagði Heimir.

Keflvíkingar voru einnig afar ósáttir við að Dennis Siim fengi að spila með FH í leiknum í Kaplakrika. Vegna mistaka hjá KSÍ gleymdist að skrá gult spjald Siim í leik FH gegn Val á endanlega leiksskýrslu og því fékk hann ekki leikbann á fundi aganefndar fyrr en viku of seint.

Pizzaveisla fyrir æfingu
Þremur dögum síðar mætti Breiðablik í heimsókn í Kaplakrika í frestaðan leik gegn FH. Keflvíkingar treystu á að FH myndi ekki vinna því að þá væri titillinn þeirra. Leikmenn liðsins hittust og á æfingasvæði Keflavíkur til að fylgjast með leiknum í sjónvarpi en þegar FH fór með 3-0 sigur af hólmi var hópnum smalað út á æfingu.

„Fókusinn hjá þeim var úti um allt. Hann var á þessu Dennis Siim dæmi og hann var á þessari pizzuveislu," segir Heimir um Keflvíkingana.

„Eftir miðvikudaginn komu myndir af Keflavíkurliðinu að labba út á æfingu. Ég prentaði út allar myndir sem ég fann af Keflavíkurliðinu að labba út á æfingu og mætti með þær á æfingu hjá okkur á fimmtudeginum. Ég sýndi leikmönnunum okkar myndirnar og sagði þeim að þessir leikmenn væru aldrei að fara að vinna þennan titil. Ég sagði við þá að ef við myndum klára þennan Fylkisleik þá væru miklar líkur á að við myndum vinna titilinn."

Dramatísk lokaumferð
FH var tveimur stigum á eftir Keflavík fyrir lokaumferðina laugardaginn 27. september. FH vann Fylki 2-0 í Árbænum og þurfti að treysta á að Keflavík myndi ekki vinna Fram.

Símun Samuelsen kom Keflavík yfir á 54. mínútu en Almarr Ormarsson og Hjálmar Þórarinsson sneru taflinu við fyrir Fram. Það varð til þess að FH varð Íslandsmeistari árið 2008 en hægt er að hlusta nánar á söguna í Návígi með Heimi Guðjónssyni.

Smelltu hér til að sjá sigurmark Fram í lýsingu Harðar Magnússonar


Smelltu hér til að hlusta á Heimi Guðjóns í Návígi - Hluti 2

Til að nálgast þættina í Apple tækjum þarf einungis að leita að "Fótbolti.net" í iTunes Podcast, eða sambærilegum forritum s.s Overcast.

Á sama hátt er hægt að nálgast þættina í Android tækjum með því að nota sambærileg forrit, s.s Pocket Casts eða Podcast Addict, og leita að "Fótbolti.net".

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner