Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 17. ágúst 2022 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Lélegar aðstæður í verkefni Vals - Á ekki að samþykkja svona bull
Mist Edvardsdóttir, varnarmaður Vals.
Mist Edvardsdóttir, varnarmaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur er á toppi Bestu deildarinnar og er komið í bikarúrslit.
Valur er á toppi Bestu deildarinnar og er komið í bikarúrslit.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mist í leik gegn Stjörnunni á dögunum.
Mist í leik gegn Stjörnunni á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur mætir Hayasa frá Armeníu í fyrramálið.
Valur mætir Hayasa frá Armeníu í fyrramálið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur leikur í fyrramálið gegn Hayasa frá Armeníu í forkeppni Meistaradeildar kvenna. Leikið er í Slóveníu.

Fréttamaður Fótbolta.net heyrði í Mist Edvardsdóttur, varnarmanni Vals, fyrir þennan mikilvæga leik sem er framundan. Valur þarf að vinna, annars eru þær úr leik í keppninni.

„Ferðalagið hófst á sunnudagskvöldið og við vorum komnar um hádegisbil á mánudag hingað á hótelið í Slóveníu, tvö flug og rúta en gekk bara fínt. Ég elska ekkert svona næturferðalög en á móti þá höfum við haft góðan tíma til að jafna okkur og ná upp orku fyrir leikinn á morgun," segir Mist.

„Hótelið er mjög fínt, þetta er víst eitthvað heilsuhótel svo hér er nóg af gömlu fólki í afslöppun. Góðar sundlaugar, eiginlega of gott veður og klassísk evrópsk nektarsauna á staðnum."

Erfitt að fá nýlegt myndefni
Valur er ríkjandi Íslandsmeistari og þær eru sigurstranglegri fyrir þennan leik sem er framundan á morgun.

„Ég er spennt fyrir þessum leik, við vitum í sjálfu sér ekki mikið um þetta lið þar sem það var erfitt að fá nýlegt myndefni af þeim en höfum fengið nokkra góða punkta frá þjálfarateyminu," segir Mist.

„Við þurfum að vera við öllu búnar og afgreiða þetta verkefni til að komast í það næsta. Ég gæti trúað því að takturinn í þessum leik verði aðeins öðruvísi en í undanförnum leikjum sem við höfum spilað heima og margt sem spilar inn í þar."

Valur hefur verið á góðu róli heima fyrir og er á toppi Bestu deildarinnar ásamt því að vera komnar í bikarúrslit. Þær koma því með mikið sjálfstraust inn í leikinn.

Skrítinn leiktími og lélegur 'standard'
Leikurinn á morgun hefst klukkan 09:00 að íslenskum tíma sem 11:00 að staðartíma. Þetta er furðulegur leiktími og þurfa Íslendingar að vakna ansi snemma til þess að fylgjast með honum.

„Þetta er skrítinn leiktími en ég gæti trúað því að hitinn hérna spili inn í að þessi tími hafi verið valinn," segir miðvörðurinn öflugi.

„Það eiga að vera 29 gráður kl. 11 á morgun en það fer svo upp í 34 gráður kl. 15 svo ég get alveg sætt mig við það að spila snemma í þetta skiptið."

Hún segir að völlurinn sem verði spilaður á sé ekki neitt frábær og aðstæðurnar ekki góðar. Það var dregið þannig að þessi túrnering var haldin í Slóveníu.

„Völlurinn og vallarsvæðið hér í Slóveníu er ekki frábært en vonandi verður grasið vökvað almennilega á morgun," segir Mist.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum samt að reyna eyða sem minnstu púðri í, hlutir sem við höfum ekki stjórn á, en ég viðurkenni að ég á samt stundum erfitt með það því það gerir mig brjálaða að vera taka þátt í undankeppni Meistaradeildarinnar og standardinn er langt undir því sem maður er vanur heima. Litlir og lélegir æfinga-/keppnisvellir og gamlir 'second class' boltar. UEFA þarf að taka stærri og hraðari skref í þessu og bera ábyrgð á því að samþykkja ekki svona bull."

Fyrsta verkefnið er að klára þennan leik
Breiðablik skrifaði söguna í fyrra með því að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, fyrst íslenskra félagsliða. Eru Valskonur að hugsa um að gera það sama núna?

„Ég met okkar möguleika góða á því að komast áfram og stefnan er að sjálfsögðu sett á að komast eins langt og hægt er í Meistaradeildinni en fyrsta verkefnið er bara að klára þennan leik á morgun. Þá getum við farið að pæla í næsta leveli og svo koll af kolli. Svo sjáum við bara til á hvaða tímapunkti við dettum út, eða ekki," segir Mist sem er spennt fyrir því að takast á við þetta verkefni á morgun.

Ef Valskonur vinna á morgun þá mæta þær annað hvort Pomurje frá Slóveníu eða Shelbourne frá Írlandi á sunnudag í öðrum úrslitaleik um að komast á næsta stig forkeppninnar.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta fer en vonandi kemst Valur í gegnum fyrstu hindrunina á morgun. Svo verður næsta hindrun tekin eftir það.

Sjá einnig:
Fengu ekki grænt ljós frá Harvard fyrir úrslitaleik í Þrándheimi
Athugasemdir
banner
banner
banner