Topplið Njarðvíkur fór illa að ráði sínu er liðið tapaði fyrir Þrótti, 3-2, á heimavelli sínum í Lengjudeild karla í dag.
Njarðvík var með fjögurra stiga forystu á toppnum fyrir þessa umferð en sú forysta er nú komin niður í tvö stig.
Leikurinn byrjaði ágætlega hjá Njarðvíkingum sem tóku forystuna á 12. mínútu er Sigurjón Már Markússon skallaði hornspyrnu Arnleifs Hjörleifssonar í netið.
Á síðustu mínútum fyrri hálfleiks fengu heimamenn tvö högg á stuttum tíma. Kári Kristjánsson hamraði boltanum í netið á 42. mínútu og mínútu síðar kom Aron Snær Ingason gestunum í forystu.
Njarðvíkingar voru fljótir að svara í byrjun síðari er Freysteinn Ingi Guðnason skallaði fyrirgjöf Oumar Diouck í netið, en Þróttarar svöruðu um hæl með marki Viktors Andra Hafþórssonar sem lét vaða í fjærhornið.
Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að finna jöfnunarmark og fengu svo sannarlega færin til þess, en það kom aldrei og Þróttur því fyrsta liðið sem tekst að vinna Njarðvíkinga í sumar! Njarðvík er áfram á toppnum með 37 stig en nú eru Þróttarar komnir upp í 2. sætið með 35 stig.
Sex marka jafntefli í Kórnum
HK og Grindavík skildu jöfn, 3-3, í svakalegum markaleik í Kórnum.
Grindvíkingar byrjuðu betur og var það Adam Árni Róbertsson sem tók forystuna fyrir gestina á 11. mínútu en eftir það varð leikurinn að eign HK sem óð í færum.
Dagur Orri Garðarsson jafnaði metin eftir klafs í teignum og gátu HK-ingar vel bætt við fram að fyrri hálfleik, en staðan 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Grindvíkingar komust aftur í forystu snemma í síðari hálfleik er Árni Salvar Heimisson og Rúrik Gunnarsson tóku þríhyrningsspil áður en Árni afgreiddi boltann í netið.
Adam Árni bætti við öðru marki sínu í leiknum stuttu síðar er hann fór illa með Þorstein Aron Antonsson og hamraði boltanum í þaknetið.
HK-ingar náðu að bjarga andliti undir lok leiks. Jóhann Þór Arnarsson minnkaði muninn á 85. mínútu og þá bætti Þorsteinn Aron upp fyrir varnarmistök sín fyrr í leiknum með flottu skallamarki í uppbótartíma.
Seint í uppbótartímanum fékk Aron Kristófer Lárusson að líta sitt annað gula spjald fyrir að rífa Harald Björgvin Eysteinsson niður og var Hermanni Hreiðarssyni, þjálfara HK, einnig sýndur reisupassinn fyrir mótmæli.
Lokatölur 3-3 í bráðskemmtilegum leik í Kórnum. HK er í 5. sæti með 31 stig en Grindavík í 8. sæti með 18 stig.
Góður útisigur Fjölnis
Fjölnir vann Selfoss, 2-1, á JÁVERK-vellinum á Selfossi.
Fjölnismenn fengu gefins mark á 22. mínútu er Daði Kárason átti slaka sendingu til baka sem Orri Þórhallsson komst inn í, lék á Robert Blakala í markinu og skoraði.
Daníel Ingvar Ingvarsson bætti við öðru fyrir Fjölni átta mínútum síðar. Hann fékk að hanga á boltanum fyrir utan teig og ákvað að láta bara vaða og í netið fór boltinn.
Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson minnkaði muninn fyrir heimamenn á 34. mínútu eftir sendingu Ívans Breka Sigurðssonar og leikurinn galopinn.
Bæði lið fengu færin til að skora í þeim síðari en fleiri urðu mörkin ekki og Fjölnismenn sem taka mikilvægan sigur með sér heim. Fjölnir er í 11. sæti með 15 stig en Selfoss í 9. sæti með 16 stig.
Stórsigur Fylkis
Fylkismenn unnu 4-0 stórsigur á Keflavík á Tekk-vellinum í Árbæ.
Arnór Breki Ásþórsson skoraði fyrsta mark Fylkis á 32. mínútu eftir geggjaðan undirbúning Emils Ásmundssonar sem lék á nokkra leikmenn áður en hann þræddi boltann inn á Arnór sem tók við boltanum og setti hann síðan af öryggi í netið.
Heimamenn gerðu út um leikinn í síðari hálfleiknum. Varamaðurinn Benedikt Daríus Garðarsson átti svakalega innkomu og skoraði tvö mörk á nokkrum mínútum.
Fyrra markið var einkar glæsilegt með hálfgerðu snúningsskoti meðfram grasinu og í netið áður en hann gerði annað markið með góðri afgreiðslu. Nikulás Val Gunnarsson lagði upp bæði mörkin fyrir Benedikt.
Guðmundur Tyrfingsson rak síðasta naglann í kistu Keflavíkur. Pablo Aguilera var með boltann vinstra megin, kom honum inn á teig á Guðmund sem þurfti ekki annað en að rúlla boltanum í netið.
Stórsigur Fylkis staðreynd sem er þó áfram í botnsætinu með 14 stig. Gríðarlega mikilvægt fyrir síðustu umferðirnar og möguleikinn á að halda sér uppi raunverulegur. Keflavík er í 6. sæti með 28 stig.
Njarðvík 2 - 3 Þróttur R.
1-0 Sigurjón Már Markússon ('12 )
1-1 Kári Kristjánsson ('42 )
1-2 Aron Snær Ingason ('43 )
2-2 Freysteinn Ingi Guðnason ('46 )
2-3 Viktor Andri Hafþórsson ('48 )
Rautt spjald: Arnar Freyr Smárason, Njarðvík ('86) Lestu um leikinn
HK 3 - 3 Grindavík
0-1 Adam Árni Róbertsson ('11 )
1-1 Dagur Orri Garðarsson ('26 )
1-2 Árni Salvar Heimisson ('54 )
1-3 Adam Árni Róbertsson ('67 )
2-3 Jóhann Þór Arnarsson ('85 )
3-3 Þorsteinn Aron Antonsson ('95 )
Rautt spjald: Aron Kristófer Lárusson, HK ('98) Lestu um leikinn
Selfoss 1 - 2 Fjölnir
0-1 Orri Þórhallsson ('22 )
0-2 Daníel Ingvar Ingvarsson ('30 )
1-2 Jón Daði Böðvarsson ('34 )
Lestu um leikinn
Fylkir 4 - 0 Keflavík
1-0 Arnór Breki Ásþórsson ('32 )
2-0 Benedikt Daríus Garðarsson ('68 )
3-0 Benedikt Daríus Garðarsson ('70 )
4-0 Guðmundur Tyrfingsson ('73 )
Lestu um leikinn
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Njarðvík | 17 | 10 | 7 | 0 | 40 - 16 | +24 | 37 |
2. Þór | 18 | 11 | 3 | 4 | 42 - 25 | +17 | 36 |
3. ÍR | 18 | 9 | 6 | 3 | 31 - 19 | +12 | 33 |
4. Þróttur R. | 17 | 9 | 5 | 3 | 33 - 26 | +7 | 32 |
5. HK | 18 | 9 | 4 | 5 | 32 - 24 | +8 | 31 |
6. Keflavík | 18 | 8 | 4 | 6 | 38 - 31 | +7 | 28 |
7. Völsungur | 18 | 5 | 4 | 9 | 30 - 40 | -10 | 19 |
8. Grindavík | 18 | 5 | 3 | 10 | 35 - 51 | -16 | 18 |
9. Selfoss | 18 | 5 | 1 | 12 | 20 - 34 | -14 | 16 |
10. Leiknir R. | 18 | 4 | 4 | 10 | 18 - 35 | -17 | 16 |
11. Fjölnir | 18 | 3 | 6 | 9 | 28 - 42 | -14 | 15 |
12. Fylkir | 18 | 3 | 5 | 10 | 25 - 29 | -4 | 14 |
Athugasemdir