Stefán Ingi Sigurðarson skoraði bæði mörk Sandefjord er liðið kastaði sigrinum frá sér í 2-2 jafntefli gegn Kristiansund í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Blikinn hefur farið hamförum í deildinni á þessari leiktíð og nú kominn með ellefu mörk, sem gerir hann að þriðja markahæsta leikmanni deildarinnar.
Stefán skoraði fyrra mark sitt á 48. mínútu. Sandefjord hélt pressunni á Kristiansund eftir hornspyrnu og kom boltinn aftur inn í teiginn, datt fyrir Stefán sem skoraði.
Annað markið gerði hann fimm mínútum síðar er hann vann einvígi sitt við Marius Olsen nokkuð örugglega áður en hann gerði ellefta deildarmark sitt.
Stefán gerði sitt en ekki er hægt að segja það sama um vörnina sem fékk á sig tvö mörk á síðustu mínútum leiksins.
Sandefjord er í 6. sæti deildarinnar með 28 stig.
Viðar Ari Jónsson var einn af bestu mönnum Ham/Kam sem vann 1-0 sigur á Bryne.
Hann var í byrjunarliði Ham/Kam og var einn af fjórum leikmönnum sem fengu 7 eða hærra fyrir framlag sitt.
Sterkur sigur hjá Ham/kam sem fer upp um tvö sæti og í það tólfta með 20 stig.
Hinrik Harðarson fékk tækifæri í byrjunarliði Odd og nýtti það með því að skora annað mark liðsins í 2-2 jafntefli gegn Moss í B-deildinni í Noregi.
Framherjinn skoraði mark sitt á 60. mínútu og kom liðinu í 2-0, en Moss kom til baka með tveimur mörkum á síðasta stundarfjórðungi leiksins.
Odd er í 9. sæti með 23 stig.
Oliver Stefánsson átti viðburðaríkan leik dag í liði Tychy, en hann lagði upp mark og fékk að líta rauða spjaldið í 2-2 jafntefli gegn Leczna í B-deildinni í Póllandi.
Hann lagði upp mark fyrir Marcel Blachewicz á 5. mínútu en sá síðan rautt spjald þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Þetta var annar byrjunarliðsleikur Olivers síðan hann kom til félagsins frá ÍA.
Tychy er í 8. sæti með 8 stig eftir fimm umferðir.
Mikael Neville Anderson lék allan leikinn hjá Djurgården sem gerði 1-1 jafntefli við Mjällby í sænsku úrvalsdeildinni. Djurgården er í 8. sæti með 28 stig.
Athugasemdir