Sancho á leið til Ítalíu - Bayern í viðræðum við Chelsea - Arsenal og Man Utd á eftir leikmanni PSG
   sun 17. ágúst 2025 16:02
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: ÍBV fór illa með topplið Vals - Andri Rúnar gerði uppeldisfélaginu grikk
Vicente Valor átti stórkostlegan leik í liði Eyjamanna
Vicente Valor átti stórkostlegan leik í liði Eyjamanna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elvis skoraði stuttu eftir að hafa komið inn á
Elvis skoraði stuttu eftir að hafa komið inn á
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Rúnar sá um sína gömlu félaga
Andri Rúnar sá um sína gömlu félaga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV og Stjarnan unnu flotta sigra í 19. umferð Bestu deildar karla í dag.

Eyjamenn unnu nokkuð sannfærandi 4-1 sigur á Val á Hásteinsvellinum í Eyjum.

Fyrirliðinn Alex Freyr Hilmarsson skoraði fyrsta mark ÍBV á 12. mínútu leiksins. Vicente Valor tók hornspyrnu inn á teiginn og eftir smá darraðardans var það Alex sem kom boltanum í markið.

Heimamenn héldu áfram að ógna marki Valsara og liðu aðeins nokkrar mínútur þangað til Sverrir Páll Hjaltested tvöfaldaði forystuna með frábæru skoti í stöng og inn. Aftur var Vicente arkitektinn að marki Eyjamanna.

Valsarar voru í tvígang nálægt því að minnka muninn. Fyrst átti Bjarni Mark Antonsson skalla í þverslá og nokkrum mínútum síðar var það Orri Sigurður Ómarsson sem setti boltann í slá eftir aukaspyrnu Tryggva Hrafns Haraldssonar.

Staðan í hálfleik 2-0 fyrir ÍBV og voru heimamenn ekkert á því að glutra þessu niður.

Þeir héldu áfram að skapa sér fínustu færi og þegar um tuttugu mínútur voru eftir kom þriðja markið. Elvis Bwomono skoraði það aðeins tæpri mínútu eftir að hafa komið inn á og enn og aftur var það Vicente með stoðsendinguna.

Níu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma var röðin komin að Hermanni Þór Ragnarssyni. Markus Lund gerði ægileg mistök í vörninni og var það Oliver Heiðarsson sem kom boltanum á Hermann sem kom ÍBV í 4-0.

Patrick Pedersen minnkaði muninn fyrir Val með marki úr vítaspyrnu undir lok leiks. Sárabótarmark, en ekkert meira en það í annars slakri frammistöðu gestanna.

Glæsileg frammistaða hjá Eyjamönnum sem fögnuðu 4-1 sigri og eru nú í 7. sæti með 24 stig en topplið Vals áfram með 37 stig og mögulega að hleypa lífi í titilbaráttuna, en Víkingur og Breiðablik koma næst á eftir þeim með 32 stig.

Andri Rúnar afgreiddi uppeldisfélagið

Stjarnan lagði Vestra að velli, 2-1, á Samsung-vellinum í Garðabæ og var það Ísfirðingurinn sjálfur, Andri Rúnar Bjarnason, sem sá um að afgreiða sína gömlu félaga.

Vestri kastaði blautri tusku í andlit Stjörnunnar strax á 3. mínútu er Anton Kralj skoraði eftir fyrirgjöf frá Ágústi Eðvald Hlynssyni. Kralj var grunsamlega einn á fjær og kláraði færið vel.

Andri Rúnar ógnaði marki Vestra nokkrum mínútum síðar er hann stangaði fyrirgjöf Damil Serena Dankerlui í þverslá. Þetta var aðeins viðvörun fyrir Vestra því Andri jafnaði metin þrettán mínútum síðar.

Sergine Fall átti skelfilega sendingu til baka sem Andri Rúnar komst inn í, fór framhjá Guy Smit og rúllaði boltanum í autt markið.

Ágúst Eðvald gat komið Vestra aftur yfir þegar hann slapp einn í gegn á 24. mínútu en skot hans fór beint á Árna Snæ Ólafsson í markinu.

Dýrkeypt klúður hjá Ágústi og var gestunum refsað níu mínútum síðar. Jóhann Árni Gunnarsson átti sendingu á nærstöngina þar sem Andri Rúnar var mættur og skoraði sigurmark leiksins.

Hálftíma fyrir leikslok kom Gunnar Jónas Hauksson boltanum í mark Stjörnumanna en markið var dæmt af þar sem Vladimir Tufegdzic var fyrir innan og var það mat dómarateymisins að hann hafi haft áhrif á leikinn Davíð Smára Lamude, þjálfara Vestra, ekki til mikillar hamingju.

Baldur Logi Guðlaugsson var nálægt því að bæta við þriðja marki Stjörnunnar á 66. mínútu en tilraun hans small í stönginni.

Stjörnumenn náðu að sigla sigrinum heim og eru áfram í 4. sæti með 31 stig, fimm stigum fyrir ofan Vestra sem er í 5. sæti.

ÍBV 4 - 1 Valur
1-0 Alex Freyr Hilmarsson ('13 )
2-0 Sverrir Páll Hjaltested ('19 )
3-0 Elvis Okello Bwomono ('73 )
4-0 Hermann Þór Ragnarsson ('81 )
4-1 Patrick Pedersen ('94 , víti)
Lestu um leikinn

Stjarnan 2 - 1 Vestri
0-1 Anton Kralj ('3 )
1-1 Andri Rúnar Bjarnason ('19 )
2-1 Andri Rúnar Bjarnason ('33 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Valur 19 11 4 4 47 - 28 +19 37
2.    Víkingur R. 18 9 5 4 33 - 24 +9 32
3.    Breiðablik 18 9 5 4 30 - 24 +6 32
4.    Stjarnan 19 9 4 6 36 - 31 +5 31
5.    Vestri 19 8 2 9 20 - 19 +1 26
6.    Fram 18 7 4 7 28 - 25 +3 25
7.    ÍBV 19 7 3 9 20 - 26 -6 24
8.    FH 18 6 4 8 31 - 27 +4 22
9.    KA 18 6 4 8 18 - 32 -14 22
10.    KR 18 5 5 8 39 - 41 -2 20
11.    Afturelding 18 5 5 8 21 - 27 -6 20
12.    ÍA 18 5 1 12 20 - 39 -19 16
Athugasemdir