Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 17. september 2019 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Neuer og Ter Stegen í orðaskaki
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Þýski markvörðurinn Marc-Andre ter Stegen er orðinn þreyttur á að vera varaskeifa Manuel Neuer í þýska landsliðinu.

Það virðist ekki skipta máli hversu vel Ter Stegen spilar með félagsliði sínu, Barcelona, þá fær hann aldrei tækifæri í keppnisleikjum með þýska liðinu.

„Auðvitað gerir þetta mig smá brjálaðan. Ég er að gera mitt besta en kemst samt ekki á staðinn sem ég vil komast á. Það gæti haft áhrif á liðsvalið að ég spila ekki í Þýskalandi en ég sé ekki eftir neinu, ég er að spila fyrir eitt sterkasta félag knattspyrnusögunnar," sagði Ter Stegen í landsleikjahlénu, eftir að Neuer fékk fjögur mörk á sig í tapi gegn Hollandi.

Neuer hélt þó byrjunarliðssætinu og hélt hreinu í 0-2 sigri í Norður-Írlandi nokkrum dögum síðar. Ter Stegen tjáði sig þá aftur í fjölmiðlum. „Þetta var mjög erfitt landsleikjahlé fyrir mig. Það er mjög erfitt að finna útskýringu á þessu."

Borussia Mönchengladbach, fyrrum félag Ter Stegen, veitti markverðinum stuðning. „Við þekkjum þig sem metnaðarfullan liðsmann, sanngjarnan íþróttamann og fínan náunga. Þú hefur lagt mikið á þig allan ferilinn og þess vegna ertu einn af bestu markvörðum heims. Haltu hausnum uppi og einn daginn færðu tækifærið þitt, því þú átt það skilið."

Neuer, sem er aðalmarkvörður FC Bayern, tjáði sig um ummæli Ter Stegen og gagnrýndi þau í stuttu viðtali við Sky.

„Ég veit ekki hvort þessi ummæli hjálpi landsliðinu. Við erum lið og þurfum að haga okkur í samræmi við það. Við erum frábært lið með frábæra markverði. Kevin Trapp og Bernd Leno eru frábærir en þurfa að sitja á bekknum.

„Við erum liðsheild og þurfum að standa með hvor öðrum. Það gildir einnig um markverðina."


Ter Stegen fékk veður af svari Neuer og svaraði til baka á fréttamannafundi fyrir leik Barcelona og Borussia Dortmund.

„Ég held að það sé ekki undir Manuel Neuer komið að tjá skoðun sína á tilfinningum mínum. Allir vita að ég hef alltaf hagað mér fagmannlega."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner