mið 16. nóvember 2022 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Ronaldo: Ungu leikmennirnir hlusta ekki á mig
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Cristiano Ronaldo er ekki vinsælasti leikmaðurinn í herbúðum Manchester United eftir að hann gaf ítarlegt viðtal við Piers Morgan á dögunum. 


Fyrri partur viðtalsins hefur verið birtur í enskum fjölmiðlum og fer Ronaldo þokkalega víðan völl þar sem hann ræðir meðal annars um glatað hugarfar ungra leikmanna í fótboltaheiminum í dag.

Hann skilur ekki metnaðarleysið í ungum leikmönnum sem hann segir ekki haga sér í líkingu við unga leikmenn fyrir 20 árum síðan.

„Ungu leikmennirnir eru með allt annað hugarfar en áður. Lífið er auðveldara fyrir þá, það vantar ákveðna reiði í hugarfarið þeirra. Þeir kunna ekki að þjást og þeim er alveg sama. Ég er ekki bara að tala um unga leikmenn hjá Manchester United heldur í öllum félagsliðum," sagði Ronaldo.

„Þeir eru uppteknir af öðrum hlutum. Tæknin truflar þá og þeir kunna ekki að hlusta. Fólk er með tvö eyru til að hlusta en ungu leikmennirnir nota eitt eyrað til að hlusta og hitt til að hleypa öllum orðunum aftur út. Þetta er synd því þeir eru með nokkrar af bestu fyrirmyndum fótboltans fyrir framan sig og gætu lært mikið.

„Þetta er skrýtið fyrir mig því þegar ég var 18, 19, 20 ára reyndi ég alltaf að fylgjast með bestu leikmönnunum til að læra af þeim. Ég fylgdist með Van Nistelrooy, Ferdinand, Roy Keane og Giggs. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef náð þessum árangri. Ég hef alltaf passað uppá líkamann og hausinn útaf því að ég lærði það frá þessum leikmönnum."

Ronaldo segist gera sitt besta til að hjálpa liðsfélögum sínum hjá Man Utd. Hann er fyrirmynd og leiðtogi en líður eins og samherjarnir hlusti ekki á sig.

„Ég er kannski ekki sá leikmaður sem gefur ráðleggingar en ég haga mér eins og fyrirmynd. Ég verð að haga mér sem fyrirmynd því ég er fyrirmynd. Ég er yfirleitt fyrstur til að mæta á æfingu og sá síðasti til að fara heim. Þetta skiptir mig miklu máli, smáatriðin eru mikilvæg.

„Eins og ég segi þá hlusta þessir ungu strákar á þig en tveimur mínútum síðar eru þeir búnir að gleyma öllu sem þú sagðir og gera frekar það sem þeim finnst vera betra. Ég reyni að vera leiðtogi og fyrirmynd en það er ekki mikill tilgangur í því þegar meirihluti leikmanna fylgir fordæminu ekki nógu vel eftir.

„Þeir vilja ekki hlusta á mig, þeim er sama um það sem ég hef að segja. Einhverjir hlusta á mig en flestum er sama. Þetta kemur mér ekki á óvart því ferlarnir hjá þessum leikmönnum munu ekki verða langir. Það er ómögulegt. Ef þú skoðar mína kynslóð er mikið af leikmönnum sem eru ennþá að spila fótbolta þrátt fyrir að vera komnir yfir 36 ára aldur - en af þessari kynslóð sem er núna að koma upp verða þeir í mesta lagi fimm talsins."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner