lau 18. janúar 2020 10:00
Magnús Már Einarsson
Berglind Björg: Ég mun skora meira en Zlatan
Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Mynd: Anna Þonn - fotbolti.net
„Ég fékk símtal og var spurð hvort ég hefði áhuga á þessu. AC Milan voru búin að fylgjast með mér í sumar og í Evrópukepninni og sýndu mikinn áhuga. Ég fór svo út að skoða aðstæður og hitti þjálfarana og svona, og eftir það þá vildi ég semja við liðið," sagði framherjinn Berglind Björg Þórvaldsdóttir við Fótbolta.net.

Berglind er farinn frá Breiðabliki til AC Milan fram á vor. „Ég verð hérna þangað til tímabilið klárast í maí. Kem svo beint heim og spila með Breiðablik í Pepsí Max deildinni,"

Berglind getur spilað sinn fyrsta leik með AC Milan gegn Roma á mánudag en Serie A lýkur 15. maí og því mun hún missa af fyrstu þremur umferðunum með Breiðabliki í sumar. Fleiri félög höfðu áhuga á Berglindi en hún valdi AC Milan.

„Það voru nokkuð mörg lið búin að sýna áhuga. Mér fannst AC Milan áhugaverðast af þeim og vildi því stökkva á þetta tækifæri," sagði Berglind en hún lék með Verona árið 2017 og er ánægð með að fara aftur í Serie A. „Mér líst mjög vel á það. Ég er mikill aðdáandi Ítalíu, og er bara virkilega spennt að vera komin hingað aftur."

Karlalið AC Milan bætti einnig við sig framherja á dögunum þegar Zlatan Ibrahimovic kom aftur til felagsins. Hvor mun skora meira út tímabilið, Zlatan eða Berglind? „Ég skal setja alla pressuna á mig sjálfa og segja að ég mun skora meira en Zlatan," sagði Berglind létt í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner