Það voru heldur betur óvænt úrslit í C-riðli Afríkukeppninnar í kvöld en Kómoreyjar unnu Gana, 3-2, í stórskemmtilegum leik. Úrslitin þýða það að Gana er úr leik en Marokkó og Gabon eru komin áfram eftir 2-2 jafntefli.
Gana hafði tapað einum og gert eitt jafntefli fyrir leikinn í kvöld en það liðu aðeins fjórar mínútur áður en Gana var lent undir gegn Kómoreyjum í kvöld.
El Fardou Ben Nabouhane skoraði eftir góða skyndisókn. Hann fékk boltann frá hægri og var með tvo möguleika. Liðsfélagi hans var einn og óvaldaður vinstra megin í teignum en Nabouhane ákvað í staðinn að skjóta og heppnaðist það því boltinn söng í netinu hægra megin.
Það hjálpaði ekki Gana að missa mann af velli á 25. mínútu er Andre Ayew fékk að líta rauða spjaldið. Markvörður Kómoreyja varði boltann út í teig og ætlaði að handsama knöttinn en Ayew mætti með takkana á undan sér og var rekinn af velli eftir nánari skoðun af VAR.
Ahmed Mogni tvöfaldaði forystuna eftir sendingu frá Nabouhane á 62. mínútu áður en Gana skoraði tvö á þrettán mínútum.
Richmond Boakye stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu á 64. mínútu og var nákvæmlega sama uppskrift er Alexander Djiku skoraði á 77. mínútu. Ágætis endurkoma sem Mogni eyðilagði fimm mínútum fyrir leikslok. 3-2 sigur Kómoreyja sem enda í 3. sæti C-riðils með 3 stig og bíða nú eftir örlögum sínum.
Gana er úr leik en liðið hafnaði í neðsta sæti riðilsins með 1 stig.
Gabon og Marokkó gerðu þá 2-2 jafntefli. Gabon hefur staðið sig frábærlega og það án Pierre-Emerick Aubameyang og Mario Lemina.
Gabon komst yfir á 24. mínútu með marki frá Jim Allevinah áður en Sofiane Boufael jafnaði úr vítaspyrnu tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok.
Gabon tók aftur forystuna með sjálfsmarki Nayef Aguerd en Achraf Hakimi kom Marokkó til bjargar með glæsilegu aukaspyrnu marki áður en flautað var til leiksloka. Marokkó tekur toppsæti riðilsins með 7 stig en Gabon í öðru með 5 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Gabon 2 - 2 Marokkó
1-0 Jim Allevinah ('21 )
1-1 Sofiane Boufal ('74 , víti)
2-1 Nayef Aguerd ('81 , sjálfsmark)
2-2 Achraf Hakimi ('84 )
Ghana 2 - 3 Kómoreyjar
0-1 El Fardou Ben Nabouhane ('4 )
0-2 Ahmed Mogni ('62 )
1-2 Richmond Boakye ('64 )
2-2 Aleksander Djiku ('77 )
2-3 Ahmed Mogni ('85 )
Rautt spjald: Andre Ayew, Ghana ('25)
Athugasemdir