Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mið 22. maí 2024 20:52
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Lookman reif Leverkusen niður á jörðina
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Atalanta 3 - 0 Leverkusen
1-0 Ademola Lookman ('12)
2-0 Ademola Lookman ('26)
3-0 Ademola Lookman ('75)

Atalanta og Bayer Leverkusen mættust í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í kvöld og búist var við hörkuslag, þar sem Leverkusen gat reynt að afreka eitthvað ótrúlegt.

Leverkusen hafði farið taplaust í gegnum 51 leik á tímabilinu og voru Þjóðverjarnir kokhraustir um að sigra slaginn í kvöld í viðtölum fyrir upphafsflautið, en Gian Piero Gasperini og Ademola Lookman höfðu önnur áform.

Framherjinn knái gerði sér lítið fyrir og skoraði tvennu í fyrri hálfleik áður en hann kláraði dæmið með þriðja markinu eftir leikhlé og fullkomnaði þannig þrennu í gríðarlega mikilvægum leik.

Leverkusen sýndi afar slaka frammistöðu gegn vel skipulögðu og orkumiklu liði Atalanta sem vann úrslitaleikinn furðu þægilega miðað við hvernig tímabilið hefur þróast.

Lokatölur 3-0 fyrir Atalanta, sem tapaði úrslitaleik ítalska bikarsins á dögunum, en þetta er aðeins annar titillinn í sögu félagsins. Atalanta, sem kemur úr bænum Bergamó, vann ítalska bikarinn 1963 og hefur ekki unnið merkan titil síðan.

Atalanta er sigursælasta lið í sögu Serie B deildarinnar á Ítalíu og hefur auk þess tapað úrslitaleik ítalska bikarsins fimm sinnum eftir að hafa unnið hann fyrir rúmlega 60 árum síðan.

Þetta er fyrsta tap Leverkusen á tímabilinu en lærisveinar Xabi Alonso geta enn unnið tvöfalt í Þýskalandi, þegar þeir mæta Kaiserslautern í úrslitaleik þýska bikarsins um helgina.
Athugasemdir
banner
banner
banner