Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 24. október 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hringdi í Óskar og Arnar Grétars en réði svo Arnar Gunnlaugs
Arnar vann tvöfalt með Víkingum í ár.
Arnar vann tvöfalt með Víkingum í ár.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrir í dag Breiðabliki.
Óskar Hrafn Þorvaldsson stýrir í dag Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Gunnlaugsson.
Heimir Gunnlaugsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Gunnlaugsson formaður meistaraflokksráðs Víkings, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær þar sem hann fór meðal annars yfir ráðninguna á Arnari Gunnlaugssyni fyrir þremur árum síðan.

Arnar var magnaður leikmaður en var óskrifað blað sem aðalþjálfari þegar Víkingar ákváðu að ráða hann árið 2018. Hann hafði þá verið aðstoðarþjálfari KR og Víkings áður en hann fékk sitt fyrsta stóra gigg.

„Ég var búinn að tala við Arnar um að koma fyrir nokkrum árum síðan og aðstoða Óla Þórðar minnir mig. Þá sagðist hann ekki vera tilbúinn, hann langaði að mennta sig meira í þessu. Það líða einhver ár, hann fer að aðstoða Willum og svo platar Logi (Ólafsson) hann að koma til okkar," sagði Heimir.

Heimir ræddi við nokkra þjálfara áður en tekin var ákvörðun um að ráða Arnar.

„Ég held að það sé allt í lagi að segja frá því svona löngu seinna að þessa haustmánuði eftir tímabilið 2018, þá hringdi ég í Óskar Hrafn (Þorvaldsson) og Arnar Grétarsson. Það voru engar formlegar viðræður, en ég nefndi þetta og spurði hvort þeir hefðu áhuga. Þeir voru tilbúnir að skoða þetta. Við vorum líka búnir að ákveða að taka samtalið við Arnar."

Hvernig tókst Arnari að sannfæra Víkinga?
Tómas Þór Þórðarson, sem stýrir útvarpsþættinum ásamt Elvari Geir Magnússyni, er mikill Víkingur. Honum leist ekki á blikuna þegar Arnar var ráðinn. Arnar stýrði ÍA til bráðabirgða árið 2008 og gekk það ekki vel.

„Okkur fannst kominn tími á að taka næsta skref í því að fara að þróa unga leikmenn og hafa skýra stefnu til 5-6 ára. Ég og Siggi Sighvats hittum Arnar Gunnlaugs og hann seldi okkur þetta á staðnum," segir Heimir.

„Það þurfti ekkert að ræða meira eftir það. Hann var vel undirbúinn þegar hann mætti. Hann talaði um að við værum ekki með sama fjármagn og önnur félög, og við þyrftum því að hugsa um styrktarþjálfun. Við þyrftum að ráða besta 'fitness' þjálfara landsins," sagði Heimir og bætti við:

„Hann sagði að við gætum ekki keypt dýrustu leikmennina, við þyrftum að taka ungu strákana sem væru að koma heim úr atvinnumennsku og þessa ungu stráka sem væru að koma upp á Íslandi; byggja stökkpall þar sem leikmenn - sem langar að vera landsliðsmenn og atvinnumenn - gætu náð næsta skrefi og blómstrað. Við erum sannarlega búnir að gera það með Atla Barkar, Kristal Mána, Ágúst Eðvald, Guðmund Andra, Óttar Magnús... þetta er lykillinn í þessu."

„Ungir leikmenn sem vilja komast áfram eru að banka á dyrnar hjá Víkingi og vilja koma að æfa hjá okkur. Arnar seldi okkur mjög skýra sýn."

Heimir kom inn á að það væri lykilþáttur í þessu öllu saman að inn á milli væru reyndari sigurvegarar. „Stefnan hjá okkur er að sækja unga og efnilega leikmenn sem við getum gert betri. En við gerum okkur grein fyrir því að við byggjum ekki upp 11 manna byrjunarlið á svoleiðis leikmönnum. Við þurfum framúrskarandi leikmenn með þeim. Það væri utan stefnunnar að sækja 28 ára gamlan leikmann til að sitja á bekknum."

Þessi sýn hefur borgað sig því Víkingar voru tvöfaldir meistarar í sumar. Félagið hefur unnið þrjá stóra titla í þjálfaratíð Arnars: Íslandsmeistaratitil og tvo bikarmeistaratitla.

Hægt er að hlusta á allan útvarpsþáttinn hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Bak við tjöldin hjá meisturunum og enski
Athugasemdir
banner
banner