sun 24. október 2021 15:35
Brynjar Ingi Erluson
„Ronaldo getur ekki spilað í hverri viku"
United getur ekki spilað þá taktík sem Ole Gunnar vill spila útaf Ronaldo
United getur ekki spilað þá taktík sem Ole Gunnar vill spila útaf Ronaldo
Mynd: EPA
Graeme Souness birti pistil um Mohamed Salah á Times í morgun og nú er hann mættur í settið hjá Sky Sports að ræða um Cristiano Ronaldo, en hann kom með nokkra punkta um hann fyrir leikinn gegn Liverpool.

Leikstíll United hefur breyst mikið frá því Ronaldo kom inn í liðið og svipað gerðist þegar hann gekk til liðs við Juventus frá Real Madrid.

Ronaldo er einn besti leikmaður sögunnar en gegnir þó ákveðnu hlutverki og það er að skora mörkin. Hann hefur fengið gagnrýni fyrir að sinna ekki varnarskyldum en hann gefur þó ekki mikið fyrir þá gagnrýni.

Souness bendir á að Ronaldo geti ekki spilað í hverri viku og að Ole Gunnar þurfi að finna rétt leikskipulag fyrir liðið.

„Ronaldo getur sagt að hann sé besti leikmaður allra tíma en gerir hann lið Man Utd betra en það er? Nei. Þetta er vandamál því liðið getur ekki spilað eins og Ole vill spila," sagði Souness.

„Þeir geta ekki verið lið sem pressar hátt, því ef einn leikmaður fylgir ekki þeirri taktík þá er auðvelt fyrir lið að eiga við það. Hann getur ekki verið í því og því þarf liðið að spila öðruvísi bolta en Ole vill spila og öll bestu lið heims gera."

„Hann mun gera áhorfendur spennta en ég held að hann geti ekki spilað alla leiki. Ég myndi allan daginn taka hann í liðið en það þyrfti alltaf að eiga sér stað samtal þar sem honum yrði sagt að hann myndi ekki spila alla leiki en myndi samt hafa mikil áhrif yfir níu mánaða tímabil."

„Það er stór ákvörðun hjá Ole að segja að liðið geti ekki spilað hápressu bara af því einn leikmaður getur það ekki,"
sagði Souness ennfremur.
Athugasemdir
banner