Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mið 25. október 2017 13:25
Þórður Már Sigfússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Albert til Rússlands, Heimir!
Þórður Már Sigfússon
Þórður Már Sigfússon
Albert Guðmundsson er lykilmaður U21 árs landsliðsins.
Albert Guðmundsson er lykilmaður U21 árs landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert hefur komið þrisvar sinnum inn á sem varamaður í aðalliði PSV á keppnistímabilinu.
Albert hefur komið þrisvar sinnum inn á sem varamaður í aðalliði PSV á keppnistímabilinu.
Mynd: Getty Images
Á undanförnum árum hefur honum verið hampað sem efnilegasta leikmanni Íslands; besta leikmanni sinnar kynslóðar. En staðreyndin er einfaldlega sú að þrátt fyrir ungan aldur er hann einn af okkar allra hæfileikaríkustu leikmönnum.

Þegar HM-hópurinn leggur af stað til Rússlands næsta sumar er það því von margra knattspyrnuáhugamanna að vonarstjarnan Albert Guðmundsson verði á meðal flugfarþega.

X-Faktorinn
Það er vöntun á leikmanni í íslenska landsliðinu sem hefur yfir að ráða sömu gæðum og hann; snerpu, hraða, tækni og þori. Hann er hinn svokallaði X-Faktor, líkt og Gylfi Þór Sigurðsson.

Spyrjið bara hollenska blaðamenn sem margir hverjir furða sig á bekkjarsetu Alberts hjá aðalliði PSV Eindhoven. Að þeirra mati ætti hann að vera búinn að spila mun fleiri mínútur en raunin hefur orðið á þessu tímabili. „Hann er fórnarlamb íhaldssemi þjálfarans," fullyrðir einn sem skrifar fyrir dagblaðið í Eindhoven.

Þá steig fyrrum þjálfari PSV fram á sjónarsviðið í dag og kallaði eftir því í hollenskum fjölmiðlum að Albert fengi fleiri og lengri tækifæri með aðalliði PSV.

Of góður fyrir norræna boltann
Ég hef heyrt útundan mér að öll bestu lið Norðurlanda líti hýrum augum til Alberts. Það skyldi engan undra og hef ég fyrir víst í samtölum við norræna sparkspekinga að Albert er einn allra besti leikmaðurinn í hans aldursflokki á Norðurlöndum.

Hann mun þó ekki sýna listir sínar á norrænum knattspyrnuvöllum. Hann er of góður fyrir það litla svið. Með fullri virðingu.

Albert æfir við kjöraðstæður með hágæðaleikmönnum á hverjum degi á aðalliðsæfingasvæði PSV, m.a. undir handleiðslu goðsagnarinnar Ruud van Nistelrooy. Það er skotheld uppskrift að góðum knattspyrnumanni.

Tölfræðin lýgur ekki í tilviki Alberts en í síðustu 16 leikjum Jong PSV í næstefstu deild í Hollandi hefur hann skorað 17 mörk. Hann hefur einnig byrjað frábærlega með U21 árs landsliðinu í undankeppni EM og skoraði m.a. tvö falleg mörk í góðum útisigri gegn Slóvakíu í síðasta mánuði. Hann er aðalmaðurinn í báðum liðum.

Hættulegt vopn í vopnabúr Heimis
Það má eiginlega segja að Albert geti leyst flestar stöður efst á vellinum vel af hendi; hann getur spilað í tveggja manna sóknarlínu, hann getur spilað á báðum köntum og þá er freistandi að setja hann í holuna fyrir aftan sóknarmanninn, því sendingargeta hans er góð.

Ég fullyrði að Albert er sniðinn að leikstíl íslenska landsliðsins. Hraði hans og útsjónarsemi hentar skyndisóknaráhlaupum strákanna okkar fullkomlega. Mörg marka hans í Hollandi koma í kjölfar skyndisókna eða hraðra sóknarlota; þegar hann stingur sér inn á milli varnarmanna sem flestir eiga ekki roð í snerpu Íslendingsins.

En þá er einungis hálf sagan sögð því hver er tilgangur sóknarmanns að hafa hraða ef hann getur ekki klárað færin. Sem betur fer fyrir okkur er Albert afar fær klárari þegar hann kemst í námunda við markið. Það er því ljóst að Albert væri meira en nothæft vopn í vopnabúri Heimis Hallgrímssonar, hann væri stórhættulegt vopn.
Athugasemdir
banner
banner
banner