
Íslenska landsliðskonan Guðný Árnadóttir lagði upp fyrsta mark AC Milan í 3-3 jafnteflinu gegn Fiorentina í Seríu A á Ítalíu í dag.
Það tók Milan aðeins fjórar mínútur að skora fyrsta markið. Guðný kom með laglega fyrirgjöf frá hægri inn í teiginn á Valery Vigilucci sem skoraði með furðulegu en hnitmiðuðu skoti yfir markvörð Fiorentina og í netið.
Guðný átti einnig þátt í öðru marki Milan en varnarmaður Fiorentina gekk illa að stýra fyrirgjöf hennar, missti boltann til Kosovare Asllani sem skoraði. Guðný fór af velli í hálfleik.
Fiorentina kom til baka í síðari hálfleiknum og náði í stig en Alexandra Jóhannsdóttir spilaði allan leikinn í Flórensarliðinu. Fiorentina er í 4. sæti meistarariðilsins með 35 stig og Milan með jafnmörg stig í 5. sætinu.
Íslendingalið Kristianstad vann fyrsta leik sinn í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu er liðið lagði Kalmar að velli, 3-1.
Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Kristianstad en Amanda Andradóttir kom inná í síðari hálfleiknum. Emelía Óskarsdóttir var ekki með í dag. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad.
Athugasemdir