Watkins og Sesko efstir á óskalista Man Utd - Newcastle hefur einnig áhuga á Sesko - Everton vill Grealish
   þri 29. júlí 2025 11:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hallgrímur hugsi yfir kvennalandsliðinu - „Fullreynt er þá þríreynt er"
Icelandair
Ísland tapaði öllum leikjum sínum á EM.
Ísland tapaði öllum leikjum sínum á EM.
Mynd: EPA
Hallgrímur Helgason.
Hallgrímur Helgason.
Mynd: Raggi Óla
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir leik hjá Íslandi á EM.
Fyrir leik hjá Íslandi á EM.
Mynd: EPA
Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason skrifaði á dögunum langan pistil á Fésbókarsíðu sinni þar sem hann setur fram hugsanir sínar um kvennalandsliðið eftir Evrópumótið í Sviss.

Stelpurnar okkar fóru á mótið í Sviss með það markmið að komast upp úr riðlinum en enduðu á botni hans án stiga; þær töpuðu öllum leikjunum sínum.

„Hugsi yfir kvennaliðinu okkar, eftir að hafa horft á þær á EM, án nokkurar trúar eða bjartsýni, en einkum þó eftir að hafa horft á sögu þess í nokkrum þáttum sem sýndir voru á RÚV í vor, frábærir og mjög sláandi þættir. Maður vissi nefnilega skammarlega lítið um erfiða fortíð kvennafótboltans," skrifar Hallgrímur og á þar við þættina Systraslag sem voru sýndir í aðdraganda mótsins.

„Það sem taka mátti úr þeim þáttum var endalaus aulaháttur KSÍ gagnvart liðinu, ekki síst í þjálfaramálum. Eintómar reddingar alla tíð og aldrei hugsað stórt eða til framtíðar," segir Hallgrímur jafnframt.

„Í eitt skipti var landsliðsþjálfarinn sóttur á næsta borð á skrifstofu KSÍ, maður sem aldrei hafði þjálfað neitt! Það sýnir styrk stelpnanna okkar að þeim gekk þrusuvel undir stjórn hans. Hvað ef þær hefðu haft alvöru þjálfara?! Næstur kom síðan ungur og fremur óreyndur maður sem aldrei áður hafði þjálfað konur! Liðinu gekk líka vel með honum nema hvað hann höndlaði ekki velgengnina og kunni (skiljanlega) ekki að fagna árangri með konum. Eitthvað gerðist í fylleríinu sem hann treysti sér enn ekki til að segja í þáttunum þótt langt væri nú um liðið."

„Besta landslið okkar á skilið þjálfara af alþjóðlegu kalíberi"
Var hann þá að tala um forvera Þorsteins Halldórssonar í starfi, þá Sigurð Ragnar Eyjólfsson og Jón Þór Hauksson. Núverandi landsliðsþjálfari, Þorsteinn, tók við í byrjun árs 2021 og er búinn að fara með liðið á tvö stórmót.

„Í krísunni sem kom í kjölfarið var núverandi þjálfari kallaður til, maður sem átti þá bestan árangur í deildinni hér heima. Allir þjálfarar kvennaliðsins hafa verið karlar (ath leiðrétt í kommentum, Helena og Vanda þjalfuðu liðið, sorry) og allir heimamenn, án reynslu erlendis frá. Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur því aldrei fengið þjálfara með alþjóðlega reynslu eða af alþjóðlegu kalíberi. Það hafa karlarnir heldur ekki oft fengið en allir vita hvað gerðist þegar Lars fékk sitt tækifæri."

„Málið er hinsvegar að íslenskar knattspyrnukonur standa körlunum ofar nú og hafa gert oftast áður. Á pappírnum eru stelpunar okkar núna firna sterkt lið. Markmaðurinn er aðalmarkvörður Inter Milan, miðjumaðurinn er líka kominn þangað, senterinn er einn af bestu framherjum heims og fyrirliðinn er fyrirliði Bayern München! (Aldrei hefur karlaliðið átt fyrirliða í einu af stóru liðunum.) Nær allt liðið leikur í stórliðum erlendis og á EM voru nær ónotaðar á bekknum tvær bestu leikmenn liðsins, upprennandi stjörnur. (Önnur þeirra, Katla Tryggvadóttir, spilaði með dóttur okkar í Val á sínum tíma og maður hefur því fylgst lengi með henni, hún var svo langbest í liðinu þær mínútur sem hún fékk.) Það vantar því ekki mannskapinn."

Það er útlit fyrir að Þorsteinn verði áfram með liðið eftir vonbrigðin á EM en hann er með samning út undankeppni HM sem fer fram á næsta ári.

„Þorsteinn er mætur maður sem kom inn á erfiðum tíma og hefur gert góða hluti með liðið en árangurinn hefur verið minni en efni stóðu til og manni finnst liðið hreinlega verðskulda nýtt upphaf. Hann kláraði tvö EM mót án tíðinda og var einni mínútu frá því að koma liðinu á HM," skrifar Hallgrímur.

„Fullreynt er þá þríreynt er. Meðvirknilaust finnst manni að nú sé kominn tími á smá myndugleika hjá körlunum í KSÍ. Besta landslið okkar í fótbolta á skilið þjálfara af alþjóðlegu kalíberi, loksins, eftir allar sínar niðurlægingar og fórnir í gegnum tíðina. Peninganíska á ekki lengur við þegar þær eru annars vegar og tíminn líður hratt í ævi fótboltakvenna. Ekki viljum við þurfa að gráta aftur yfir næsta kafla í sögu liðsins þar sem aðalstjörnurnar mæta í viðtal eins og Vanda og co og segja: 'Og þarna var ferillinn minn bara búinn og mér fannst ég aldrei hafa fengið almennilegan tíma með landsliðinu þar sem allt var upp á tíu'," segir Hallgrímur í lokin á pistlinum.

Pistillinn hefur vakið mikla athygli og fengið meira en 600 læk og hjörtu. Á meðal þeirra sem smella í læk við færsluna er faðir Glódísar Perlu Viggósdóttur, landsliðsfyrirliða, og Þóra Björg Helgadóttir, fyrrum landsliðskona.


Uppbótartíminn - Lygilegt hjá Ljónynjum, Blikar í toppmálum og fallbaráttan harðnar
Athugasemdir
banner