„Það eru fáir leikmenn Vals í gegnum árin sem hafa komið mér jafn skemmtilega á óvart og Tómas Bent," segir hlaðvarpsstjórnandinn Jóhann Skúli Jónsson á samfélagsmiðlinum X. Tómas Bent Magnússon er að kveðja Val og ganga í raðir skoska félagsins Hearts.
Fótbolti.net sagði frá því í gær að Valur hefði samþykkt tilboð frá Hearts í miðjumanninn öfluga sem hefur komið rækilega á óvart í Bestu deildinni í sumar.
Fótbolti.net sagði frá því í gær að Valur hefði samþykkt tilboð frá Hearts í miðjumanninn öfluga sem hefur komið rækilega á óvart í Bestu deildinni í sumar.
Tómas Bent kom í Val fyrir tímabilið eftir að hafa leikið vel með Eyjamönnum í Lengjudeildinni síðasta sumar. Núna í sumar hefur hann blómstrað á Hlíðarenda og er að fá skemmtilegt skref.
„Ég sé ekki hver á að fylla þetta skarð á miðjunni sem Tómas Bent skilur eftir sig," sagði Haraldur Örn Haraldsson í Innkastinu.
„Þú segir það en þeir eru með einn dýrasta leikmann deildarinnar í Aron Jó, sem er að koma til baka," sagði Valur Gunnarsson en það er spurning hvort Aron komi með sama kraft í Valsliðið og Tómas Bent hefur verið með.
„Það er svolítið súrrealískt að við séum að ræða það að Tómas Bent, sem var að spila í Lengjudeildinni í fyrra, sé að fara frá Val og það skarð verði ekki fyllt þó að Aron Jó sé að mæta til baka," sagði Elvar Geir Magnússon.
„Ég sá Tómas Bent á undirbúningstímabilinu og mér fannst hann tveimur skrefum á eftir. Hugsaði að þetta ætti eftir að taka langan tíma," sagði Valur og bætti við að Tómas og Kristinn Freyr Sigurðsson hefðu umturnað miðjunni hjá Valsmönnum í sumar. „Aron er ógeðslega góður í fótbolta og þarf aðeins að fara að sýna það aftur."
Tómas Bent er klárlega leikmaður sem Valsmenn munu sakna.
„Mikið ofboðslega mun ég sakna hans," skrifar Jói Skúli en Tómas kveður með Valsmenn á toppi Bestu deildarinnar.
Það eru fáir leikmenn Vals í gegnum árin sem hafa komið mér jafn skemmtilega á óvart og Tómas Bent. Mikið ofboðslega mun ég sakna hans #TB2
— Jói Skúli (@joiskuli10) July 29, 2025
Athugasemdir