banner
   fim 30. júlí 2020 11:43
Magnús Már Einarsson
Fundarhöld hjá KSÍ með framhaldið - Ákvarðanir teknar eins fljótt og hægt er
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ er að skoða framhald móta eftir að lagt var til að íþróttaviðburðum fullorðinna verði frestað til 10. ágúst næstkomandi.

„Varðandi Covid-19 mál, framhald móta og annað. Það er að mörgu að hyggja og margt að skoða. KSÍ er í sambandi við hagsmunaaðila. Ákvarðanir teknar og gefnar út eins fljótt og hægt er," segir KSÍ á Twitter í dag.

Í dag kynntu yfirvöld á Íslandi hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Tveggja metra reglan verður ekki lengur valkvæð heldur skyldubundin.

Hertar aðgerðir taka gildi á morgun en í kvöld eru nokkrir leikir á dagskrá, meðal annars í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

„Leikirnir í kvöld eru á dagskrá þar til annað er ákveðið," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Fótbolta.net í dag.

„Við erum að fara yfir þetta heildstætt. Við erum að fara yfir leiki kvöldsins, hvort lið geti verið með æfingar og slíkt. Við erum að afla okkur frekari upplýsinga. Mótanefnd kemur saman í hádeginu og stjórn KSÍ beint í kjölfarið."

Í dag var einnig tilkynnt að samkomubann miðist nú við 100 manns en ekki 500 líkt og áður. Það mun hafa áhrif á áhorfendasvæði þegar boltinn byrjar að rúlla á ný.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner