Jón Þór Hauksson mun stýra Vestra í síðustu þremur leikjum liðsins í Bestu deildinni og fær það verkefni að hræða falldrauginn burt frá Ísafirði.
Kári Snorrason, fréttamaður Fótbolta.net, ræddi við Jón Þór og hægt er að hlusta á spjallið í spilaranum hér að ofan
Kári Snorrason, fréttamaður Fótbolta.net, ræddi við Jón Þór og hægt er að hlusta á spjallið í spilaranum hér að ofan
„Þetta bar brátt að. Ég fékk símtal seint í gærkvöldi og var spurður að því hvort ég væri tilbúinn að aðstoða menn á Ísafirði. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert á leiðinni í það á þessu tímabili en þeir eiga inni hjá mér. Ég hef gott samstarf við þá áður og mér er bæði ljúft og skylt að gera það þó þessi staða sem er komin upp sé auðvitað engin óskastaða fyrir neinn," segir Jón Þór.
Jón Þór er að góðu kunnur hjá Vestra en hann stýrði liðinu seinni hluta tímabilsins 2021 og gerði þá góða hluti. Liðið endaði í 5. sæti Lengjudeildar og komst í undanúrslit í bikar. Hann hætti svo um veturinn og tók við ÍA.
„Ég átti mjög góðan tíma þarna á sínum tíma og þykir vænt um fólkið þarna og félagið. Fyrst þessi staða var komin upp þá rann mér blóðið til skyldunnar."
Davíð Smári Lamude var látinn fara í gær en gengi Vestra hefur verið herfilegt síðan eftir að liðið hampaði bikarmeistaratitlinum. Jón Þór þekkir vel til hjá Vestra en liðið er þó mikið breytt frá því að hann var þarna.
„Þetta er mikið breytt frá því að ég var þarna síðast. Davíð hefur gert frábæra hluti en leikmannahópurinn er mikið breyttur frá því að ég var þarna. Það er hellingur af hlutum sem maður þarf að setja sig inn í, maður þarf að vinna hratt, vel og mikið til að koma sér sem allra fyrst inn í hlutina," segir Jón Þór en hann var á leið til Ísafjarðar þegar Kári spjallaði við hann.
„Þetta er ærið verkefni. Byrjunin á mótinu var frábær hjá Vestra og liðið var eitt af bestu liðunum í deildinni. Eftir þennan frábæra sigur í bikarnum hefur reynst erfitt hjá liðinu að gíra sig upp. Menn þurfa að átta sig á stöðunni fljótt og leggja hart að sér til að fjarlægast botninn."
Ef vel tekst til í komandi leikjum og Vestri heldur sæti sínu, hefði Jón Þór áhuga á því að halda áfram með liðið á næsta ári?
„Það er í sjálfu sér ekki til skoðunar. Það er allur fókus á leiknum á sunnudaginn. Þessi staða kom mjög snöggt upp og það þurfti að bregðast hratt við því."
„Maður þarf að koma sér á staðinn og taka púlsinn, átta sig á stöðunni. Ég er ekki mættur til að snúa öllu á hvolf eða annað slíkt. Þetta er frábærlega þjálfað lið. Davíð hefur gert alveg stórkostlega hluti. Fyrir mig er þetta að reyna að átta mig á stöðunni og vandanum, reyna að laga það sem þarf að laga. Menn þurf að koma sér niður á jörðinni og átta sig á stöðunni, leggjast allir á eitt að koma liðinu á þann stað sem við vitum að þeir geta."
Vestramenn eru tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir. Vestri mun heimsækja KA og Aftureldingu áður en liðið leikur gegn KR á heimavelli í lokaumferðinni.
Athugasemdir