lau 30. nóvember 2019 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp: Settum inn á frosinn markvörð
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp.
Mynd: Getty Images
Adrian.
Adrian.
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, hrósaði markverðinum Adrian eftir að hann kom inn á sem varamaður í 2-1 sigri á Brighton í ensku úrvalsdeildinni.

Alisson var rekinn af velli fyrir að verja boltann fyrir utan teig með höndum. Adrian kom inn á og fékk strax á sig mark þegar Lewis Dunk skoraði úr aukaspyrnu. Adrian var enn að stilla upp varnarveggnum þegar Martin Atkinson flautaði í flautu sína og Dunk reið á vaðið.

„Seinni hálfleikurinn var erfiðisvinna, en strákarnir stóðu sig ótrúlega vel," sagði Klopp eftir leikinn.

„Auðvitað varð staðan flóknari út af rauða spjaldinu og skiptingunni sem við urðum að gera. Við settum inn á frosinn markvörð."

Klopp virtist ekki vera mjög sáttur með að Atkinson flautaði eins snemma og hann gerði.

„Fólkinu á vellinum er örugglega kalt. Ímyndið ykkur að fara inn á í stuttbuxum, mjög þunnri treyju og hönskum sem eru ekki gerðir til að halda á þér hita. Svo leyfa einhverjir aukaspyrnunni að gerast eins og hún gerði."

„Þú lítur svolítið fáránlega út, en þú verður bara að samþykkja það. Við héldum áfram að berjast og Adrian hjálpaði okkur mikið með því að verja tvisvar mjög vel og grípa fyrirgjafir. Þó var hann með kaldar fætur og gat ekki sparkað eins langt og hann vildi."

„Þetta hélt hlutunum athyglisverðum, en á endanum skiptir það bara máli að vinna leikinn og það gerðum við. Ég er mjög ánægður með það."

Liverpool er eftir sigurinn í dag með 11 stiga forystu á toppi deildarinnar.

„Við erum ekki að hugsa um bilið. Fólk er að tala að við séum með 11 stiga forskot, en Leicester á eftir að spila á morgun og gætu minnkað muninn í átta stig. Þannig lít ég á það - ekki það að Everton geti ekki strítt þeim."

„Við hugsum ekki um svona hluti. Við þurfum bara að vera tilbúnir í næsta leik," sagði Klopp.
Athugasemdir
banner
banner
banner