Munu Man Utd og Liverpool berjast um Eze? - Pochettino tekur við Bandaríkjunum - Antony gæti verið lánaður til Tyrklands
banner
   sun 03. júlí 2011 22:53
Fótbolti.net
Umfjöllun: BÍ/Bolungarvík í undanúrslit í fyrsta sinn
Gunnlaugur Jónasson skrifar frá Ísafirði
Stuðningsmenn BÍ/Bolungarvíkur voru í stuði á leiknum í dag.
Stuðningsmenn BÍ/Bolungarvíkur voru í stuði á leiknum í dag.
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
Mynd: Ívar Atli Sigurjónsson
BÍ/Bolungarvík 3 - 2 Þróttur
0-1 Guðfinnur Þórir Ómarsson ('1)
1-1 Nicholas Deverdics ('4)
2-1 Alexander Veigar Þórarinsson ('9)
3-1 Nicholas Deverdics ('65)
3-2 Sveinbjörn Jónasson ('66)

Brekkan við Torfnesvöll var þétt setin af bæði heimamönnum sem og þónokkrum Kötturum sem gerðu sér ferð vestur á leik BÍ/Bolungarvíkur og Þróttar. Í deildinni eru liðin á svipuðu róli og aðeins munar einu stigin á liðunum. Það er hins vegar ekki spurt um stöðu í deild þegar kemur að bikarkeppninni eins og bæði þessi lið sönnuðu í 16-liða úrslitunum þegar þau lögðu úrvalsdeildarliðin Fram og Breiðablik að velli.

Mikið var í húfi fyrir bæði lið því tækifæri á að komast í undanúrslit bikarkeppninnar eru ekki á hverjum degi. Það þurfti því ekki að koma neinum á óvart að liðin komu af miklum krafti til leiks. Eftir rétt um 90 sekúndna leik fékk Guðfinnur Þórir Ómarsson boltann inn í teig heimamanna og fékk ótrúlega mikinn tíma til að leggja hann fyrir sig áður en hann hamraði boltann upp í þaknetið. Staðan því orðin 0-1 strax á annari mínútu.

Þetta virtist hrista upp í heimamönnum því þremur mínútum síðar var brotið á Andra Rúnari Bjarnasyni rétt fyrir utan teig gestanna. Nicky Deverdics tók spyrnuna og setti hann snyrtilega framhjá veggnum og efst í vinstra markhornið án þess að Trausti Sigurbjörnsson kæmi vörnum við. Markið mætti kannski að einhverjum hluta skrifast á Trausta þar sem að þetta var hans horn en hann tók skrefið yfir eins og markmenn svo gjarnan gera. Skot Nickys var gott engu að síður.

Þeir bláklæddu voru ekki hættir því á 9.mínútu sendi Colin Marshall boltann á Michael Abnett sem lék upp að endamörkum og sendi boltann fyrir þar sem Alexander Veigar Þórarinsson kom aðvífandi á fjærstönginni og skallaði hann í netið.

Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn talsvert. Þróttarar voru ívið meira með boltann það sem eftir lifði hálfleiks en einu ógnanir þeirra að marki voru skot utan að velli en Þórður Ingason stóð vaktina vel hjá heimamönnum. Hvorugt liðið átti fleiri afgerandi færi í hálfleiknum. Enda kannski skiljanlegt að þau hafi viljað þétta til baka eftir ansi opna og fjöruga byrjun.

Seinni hálfleikur var talsvert opnari en sá fyrri og bæði lið sköpuðu sér nokkur ágæt færi. Á 64.mínútu fengu heimamenn aukaspyrnu sem endaði á kollinum á Alexander Veigari og þaðan í slánna. Í kjölfarið af því fengu þeir aftur aukaspyrnu, nú rétt fyrir utan teig Þróttara. Aftur var það Nicky Deverdics sem steig á stokk. Í þetta skiptið skrúfaði hann boltann laglega yfir vegginn og í bláhornið hægra megin.

Leikmenn BÍ/Bolungarvíkur voru eflaust ennþá að fagna glæsilegu marki þegar Þróttarar tóku miðju. Undirritaður var ennþá að færa mark og markaskorara til bókar þegar glumdi í markslá heimamanna. Gestirnir léku boltanum hratt upp völlinn á Sveinbjörn Jónasson sem var ekkert að tvínóna við hlutina og lét vaða af um 30 metra færi með þessum líka fína árangri. Það verður því seint hægt að kvarta undan gæðunum á mörkunum í dag.

Eftir þetta jókst hraðinn í leiknum til muna og varð hann enn opnari fyrir vikið. Þróttarar voru nálægt því að jafna metin rétt fyrir leikslok þegar Oddur Björnsson átti skalla í slá. Síðustu mínúturnar pressuðu gestirnir stíft en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu áður en Kristinn Jakobsson flautaði leikinn af. BÍ/Bolungarvík því komið áfram í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögu þessa unga félags.

Hjá gestunum voru markaskorararnir Guðfinnur Þórir Ómarsson og Sveinbjörn Jónasson ásamt hinum unga Arnþóri Ara Atlasyni hættulegastir. Guðfinnur gerði Gunnari Má Elíassyni lífið leitt og koma það talsvert á óvart þegar honum var skipt útaf. Sveinbjörn var gríðarlega sterkur einn uppi á topp og sóknarleikur liðsins fór að miklu leyti í gegnum hann.

Hjá heimamönnum var Þórður Ingason traustur í markinu og gat lítið við mörkunum gert. Zoran Stamenic var gríðarlega öflugur og þéttur fyrir og gekk honum einna best að halda aftur af Sveinbirni. Maður leiksins var þó Andri Rúnar Bjarnason sem tók stöðu Tomi Ameobi í fremstu víglínu og var á hlaupum allan leikinn. Hafsentapar Þróttara þeir Ingvar Þór Ólason og Jens Elvar Sævarsson fengu engan frið fyrir stanslausri pressu og vinnusemi hans og töpuðu ófáum skallaeinvígjum gegn honum.
banner