Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 08. maí 2008 09:00
Fótbolti.net
Spá fyrirliða og þjálfara í 1.deild karla: 3.sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um fyrstu deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í þriðja sætinu í þessari spá voru Stjörnumenn sem fengu 198 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Stjörnuna.

.
3.sæti: Stjarnan
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.stjarnan.is

Samkvæmt spá fyrirliða og þjálfara í 1. deild karla verður Stjarnan í baráttu um að komast upp í Landsbankadeildina á komandi tímabili. Í Garðabænum vill fólk fara að sjá sitt lið keppa aftur í deild þeirra bestu. Þegar Bjarni Jóhannsson var ráðinn þjálfari sagði í fréttatilkynningu frá Stjörnunni að stefnan væri sett upp í úrvalsdeild en Stjarnan lék þar síðast árið 2000.

Það fer því ekki á milli mála hvert markmið Stjörnunnar er í sumar. Liðið olli vonbrigðum á síðasta tímabili þegar það hafnaði í níunda sæti. Það má þó deila um hvort væntingarnar til liðsins hafi verið raunhæfar eða hvort mannskapurinn hafi einfaldlega ekki verið nægilega sterkur.

Eitt helsta vandamál Stjörnunnar síðustu ár hefur verið varnarleikurinn. Nú hefur
hinsvegar verið fyllt það vel upp í götin að varnarleikurinn ætti að vera helsti styrkleiki Stjörnunnar í sumar. Liðið fékk á sig 44 mörk í deildinni í fyrra en miðað við hvernig vörn liðsins verður skipuð í sumar ættu þau að vera talsvert færri en í fyrra.

Í markinu er einn af betri markvörðum landsins, Bjarni Þórður Halldórsson, sem klárlega er í úrvalsdeildarklassa. Bjarni kom frá Fylki en lék á lánssamningi með Víkingi Reykjavík í fyrra. Þá er varnarmaðurinn sterki Tryggvi Sveinn Bjarnason kominn frá KR en hann á fjölmarga leiki í Landsbankadeildinni og er mikill styrkur. Hann myndar virkilega sterkt miðvarðapar með Daníel Laxdal.

Þá hefur liðið fengið Kára Ársælsson á láni frá Breiðabliki og styrkir hann vörnina enn frekar. Einnig er sóknarmaðurinn Ellert Hreinsson kominn á láni frá Blikum en hann lék með Víkingi Ólafsvík í fyrra. Liðið hefur hinsvegar misst nokkra leikmenn en þar munar mestu um Guðjón Baldvinsson sem kominn er í KR. Meðan vörnin er talsvert sterkari en í fyrra hefur sóknarleikur liðsins veikst við að missa Guðjón.

Stjarnan hefur virkilega góða aðstöðu á sínu svæði þar sem vantar ekki gervigrasvellina. Liðið leikur heimaleiki sína á gervigrasi og mætti þá kannski búast við því að heimavöllurinn væri þeim drjúgur. Það var hinsvegar alls ekki raunin í fyrra en liðið fékk aðeins ellefu stig á heimavelli, það var enginn heimavöllur sem var veikari síðasta sumar.

Styrkleikar: Skyndilega er varnarleikurinn sterkasta vopn Stjörnunnar. Liðið hefur virkilega öfluga varnarmenn og frábæran markvörð þar fyrir aftan. Hraðinn er líka mikill styrkur hjá Stjörnuliðinu en þeir hafa marga snögga leikmenn og getur sótt hratt fram á við. Það verður ekkert grín að eiga við skyndisóknir liðsins ef það verður í ham. Eru með virkilega reyndan þjálfara.

Veikleikar: Sóknarleikurinn er að mörgu leyti spurningamerki og óvíst hvernig liðið nær að jafna sig á því að missa Guðjón Baldvinsson. Heimavöllur liðsins var alls ekki sterkur síðasta sumar og það er eitthvað sem verður að lagast. Pressan er mikil í Garðabæ en ef liðið lendir í einhverju mótlæti gæti það orðið brothætt.

Þjálfari: Bjarni Jóhannsson. Var ráðinn þjálfari eftir síðasta tímabil. Bjarni er mjög reyndur þjálfari og var m.a. aðstoðarmaður Eyjólfs Sverrissonar hjá landsliðinu. Hann hefur þjálfað víða, gerði Fylki að bikarmeisturum og hefur einnig stýrt Grindavík og Breiðablik. Hátindur Bjarna á þjálfaraferlinum var þegar hann stýrði ÍBV 1997-1999. Fyrri tvö árin gerði hann liðið að Íslandsmeisturum og þriðja árið enduðu þeir í öðru sæti deildarinnnar. Fyrri tvö árin komst ÍBV einnig í bikarúrslit og vann bikarinn í síðara skiptið.

Lykilmenn: Bjarni Þórður Halldórsson, Daníel Laxdal og Tryggvi Sveinn Bjarnason.

Komnir: Bjarni Þórður Halldórsson frá Fylki, Tryggvi Sveinn Bjarnason frá KR, Ellert Hreinsson frá Breiðabliki, Kári Ársælsson frá Breiðabliki, Björn Pálsson frá Sindra, Hafsteinn Helgason frá Reyni S., Einar Ingi Jóhannsson frá Hvöt, Sigurður Brynjólfsson frá Álftanesi.

Farnir: Guðjón Baldvinsson í KR, Daði Kristjánsson í Hamrana/Vini, Magnús Þormar í Grindavík, Guðni Páll Viktorsson í Reyni S., Ögmundur Ólafsson í HK.



Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. Stjarnan 198 stig
4. Fjarðabyggð 171 stig
5. Haukar 123 stig
6. Selfoss 119 stig
7. Leiknir 117 stig
8. KA 115 stig
9. Þór 107 stig
10. Víkingur Ólafsvík 77 stig
11. Njarðvík 75 stig
12. KS/Leiftur 33 stig
Athugasemdir
banner
banner
banner