Barca vill Dani Olmo - Crystal Palace að bjóða í Smith Rowe - Sergi Roberto vill enska boltann - Newcastle spyrst fyrir um Madueke
   mán 14. febrúar 2011 18:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
AC Milan og umboðsmaðurinn
Atli Ísleifsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Umboðsmaðurinn Mino Raiola.
Umboðsmaðurinn Mino Raiola.
Mynd: Getty Images
Zlatan Ibrahimovic kom til AC Milan fyrir tilstuðlan Raiola.
Zlatan Ibrahimovic kom til AC Milan fyrir tilstuðlan Raiola.
Mynd: Getty Images
Robinho kom líka til AC Milan með hjálp Raiola.
Robinho kom líka til AC Milan með hjálp Raiola.
Mynd: Getty Images
Galliani hefur setið ófáa fundina með Raiola.
Galliani hefur setið ófáa fundina með Raiola.
Mynd: Getty Images
Það dugði einfaldlega ekki að vera einn af leiðandi umboðsmönnum fótboltans og umboðsmaður best launaða leikmanns heims. Síðasta hálfa árið hefur verið nóg að gera hjá Mino Raiola sem hefur haft milligöngu um komu sex leikmanna til AC Milan – rúmlega hálft byrjunarlið.

Klukkan er fimm mínútur yfir átta að kvöldi dags í lok janúarmánaðar og styttist í lok félagaskiptagluggans. Adriano Galliani, framkvæmdastjóri AC Milan, er mættur í höfuðstöðvar Espanyol til að ræða möguleg félagaskipti. Sér við hlið er Galliani með Mino Raiola. Galliani sést vart öðruvísi þessa dagana.

Síðasta árið hefur AC Milan farið í gegnum miklar breytingar sem tekur félög jafnan þrjú til fjögur ár að framkvæma. Milan-menn geta varla hugsað sér útkomuna betri. AC er á toppnum í Serie A, komnir í undanúrslit í Coppa Italia og enn í Meistaradeildinni. Auðveldast er að benda á Zlatan Ibrahimovic og fullyrða að hann sé mikilvægasti maðurinn í komu nýja tímans á San Siro. Það væri þó ekki alveg sannleikanum samkvæmt.

Zlatan hefði aldrei snúið aftur til Mílanóborgar ef ekki hefði verið fyrir umboðsmann hans, multitaskarann Mino Raiola. Hið sama má segja um Robinho, van Bommel, Emanuelson og Rodrigo Ely.

Eftir tæplega þriggja klukkustunda fund er Raiola búinn að sauma saman samningaviðræður AC og Espanyol um félagaskiptin. Fimm mínútur í ellefu er þetta klappað og klárt. Hinn 21 árs gamli vinstri bakvörður Dídac Vilá er á leiðinni til Ítalíu. Þrjár milljónir evra í vasa Espanyol og enn einn Raiola-leikmaðurinn á leið til Milanello.

Milan-menn búast við að komandi vor fari í sögubækurnar. Nýir verðlaunagripir skulu skila sér í verðlaunaskáp AC Milan og færa má rök fyrir því að það sé hvorki Berlusconi, Galliani né Allegri sem hafi byggt þetta nýja lið upp. Fyrir skemmstu mátti sjá fyrirsögnina “Raiola é il nuovo re del mercato di casa Milan” í Mílanó-dagblaðinu Il Giornale. Raiola er kóngur félagaskiptamarkaðarins heima hjá Milan.

Breytt hlutverk umboðsmannsins
Í fótboltaheiminum hefur hlutverk umboðsmannsins breyst síðasta áratuginn eða svo. Nú til dags er það síður en svo sjálfsagt að umboðsmenn séu einungis fulltrúar leikmanna. Þeir geta allt eins verið ráðnir af klúbbi með það að markmiði að leiða fjölda viðskipta til lykta á skömmum tíma.

Þekktustu dæmin koma frá Englandi. Umboðsmaður hjá skifstofunni SEM – sem er deild innan íþróttafjölmiðlarisans Kentaro – kom að átta leikmannakaupum á örfáum vikum eftir að Sven-Göran Eriksson tók við stjórastólnum hjá Manchester City. Við valdaskiptin í Blackburn fyrr í vetur tók sami starfsmaður til starfa sem ráðgjafi Indverjanna og fékk umboð til að skipta Sam Allardyce út fyrir tvo af sínum eigin skjólstæðingum – Steve Kean og John Jenssen.

AC Milan hafði lengi átt í samstarfi við “félagsskiptaráðgjafann” Ernesto Bronzetti, en óánægja í garð hans hafði vaxið jafnt og þétt vegna viðskipta sem urðu æ kostnaðarsamari og þyngri í vöfum. Hér myndaðist glufa fyrir mann sem fékk hlutina til að gerast. Þetta gat var fyllt með hinum íturvaxna Mino Raiola.

Hefur aldrei bakað pizzu
Mino Raiola hefur aldrei á ævi sinni bakað pizzu, þrátt fyrir að sú saga hafi ekki komist á kreik að ástæðalausu. Hann hóf störf á veitingastað föður síns þegar hann var 11 ára gamall. –Ég gerði það fyrst og fremst til að vera nálægt pabba. Ég gerði hins vegar allt nema að starfa í eldhúsinu. Ég þjónaði til borðs, vaskaði upp og skúraði. Þar lærði ég hvað erfið vinna væri.

Þegar Raiola var 15 ára var hann þegar orðinn ábyrgur fyrir bókhaldi fjölskyldufyrirtækisins og átti samskipti við skattasérfræðinga og lögmenn. Þegar hann var orðinn 18 keypti hann sinn fyrsta veitingastað – McDonald’s-útibú – sem hann seldi aftur mánuði síðar. Hann hagnaðist mikið á þeim viðskiptum.

Einu ári síðar var hann kjörinn í stjórn FC Haarlem í Hollandi. Á sama tíma tók hann lögfræðikúrsa í háskóla og lærði með hvaða hætti samningar innan fótboltans væru settir upp. Innan Hollands voru leikmenn seldir samkvæmt fyrirfram ákveðnu verði sem grundvallaðist á aldri, launum og árangri. Á móti kom að ekki var að finna neitt sambærilegt kerfi varðandi sölur á leikmönnum milli landa.

Stefndi á toppinn
Mino Raiola hefur aldrei verið hræddur við yfirvald, hvaða nafni sem það kann nú að heita. Hann nýtti sér smuguna, skoraði hollenska knattspyrnusambandið á hólm og aðra umboðsmenn í leiðinni. –Ég sprengdi kerfi sem var gallað.

Fljótlega setti hann sér markmið um að eiga í viðskiptum við þá allra stærstu. Luciano Moggi, hinn umdeildi stjórnarformaður Juve, var líklegast valdamesti maður ítalska boltans svo Raiola bókaði fund með honum. Eftir að hafa beðið eftir Moggi fyrir utan skrifstofu hans í hálftíma hreytti hann út úr sér nokkrum vel völdum ókvæðisorðum og stormaði út úr höfuðstöðvum Juventus.

Í ítalska GQ hefur Raiola greint frá því hvernig hann reyndi í kjölfarið að hafa uppi á og nálgast Moggi á veitingastað í nágrenninu. –Ég fór upp að borði hans og sagði honum hvað mér fannst. Að hann hafi komið illa fram við mig. Hann sagði: “Hver í andskotanum ert þú? Hvað viltu?” Ég svaraði: “Þú munt komast að því þegar þú vilt fá einn af leikmönnum mínum.”

Nærri tíu árum síðar vildi Juventus kaupa Pavel Nedved frá Lazio. Eða með öðrum orðum: Moggi vildi fá einn af leikmönnum Raiola. “Ég þurfti aftur að bíða í hálftíma svo ég stakk af. Þegar hann hringdi sagði ég um hæl: “Nú byrja viðræðurnar.” “Þú ert galinn. Hver heldurðu að þú sért?” svaraði Moggi.

Juventus þurfti á endanum að greiða 41 milljónir evra fyrir Nedved, en Luciano Moggi og Mino Raiola urðu félagar. Þremur árum síðar unnu þeir saman að því að fá Zlatan Ibrahimovic til Juve frá Ajax.

Raiola og AC
Þegar Mino Raiola lýsir sjálfum sér í viðtali við hollenska blaðið Het Parool segir hann sig vera “mann sem fær hið ómögulega til að gerast”. Það virtist vera mission impossible að fá Zlatan til AC Milan síðasta sumar. Galliani var örvinglaður. “Ég er með þrettán samninga sem eru í þann mund að renna út. Hvaðan á ég að fá peningana?” Allir sögðu að það myndi aldrei ganga. Zlatan fór til Barcelona fyrir 75 milljónir evra. Ári síðar fékk Milan leikmanninn fyrir tæpar 20 milljónir evra. Það gekk eftir.

Raiola útskýrir. –Leikmennirnir mínir eru börnin mín, bræður mínir. Zlatan hafði flutt til Barcelona til að vera þar, en eftir að Guardiola setti hann út úr liðinu sagði hann: “Ég skammast mín, Mino”. Ég þoli ekki að sjá leikmann minn óhamingjusaman eða að komið sé fram við þá á óréttlátan hátt. Ég sagði því skoðun mína. Það er sama við hvern ég er að tala – Mourinho eða Guardiola – ég geri alltaf það sem er best fyrir leikmennina.

Money, money, money
Samkvæmt ítalska Sky þá fær Raiola um milljarð króna á ári, sem jafnast á við laun einhvers af stærstu leikmönnum sínum, t.d. Robinho. -”Ef ég græði mikið þá er það vegna þess að leikmenn mínir gera það – og ég reyni alltaf að kreista út hvert einasta sent sem þeir eiga möguleika á að fá. Það er engin tilviljun að leikmenn mínir græða mest allra í heiminum. Um árabil var Nedved launahæsti leikmaður heims. Nú er það Ibrahimovic. Messi? Ronaldo? Rooney? Heimildir mínir segja annað. Nú er ég að ræða laun, en ekki auglýsingatekjur og annað slíkt. Zlatan er sænskur. Hefði hann verið Brasilíumaður hefði hann grætt hundrað milljónir evra á ári.”

Það er auðvelt að sjá mynstur í þeim félagaskiptum sem Mino Raiola hefur komið að að undanförnu. Kaupupphæðin hefur verið tiltölulega lág, sem hefur opnað á möguleikann á hærri launum leikmannsins. Milan og leikmennirnir eru ánægðir, en félagið sem selur leikmanninn hefur ekki verið jafn ánægt.

-Það skiptir mig engu hvort mannorð mitt sé gott eða slæmt. Ég á rætur að rekja til suðurhluta Ítalíu og þar segja menn: “Því fleiri óvinir, því meiri heiður.” Færðu menn til að óttast þig þá ertu líklegast að gera eitthvað rétt.

Að mörgu leyti er Mino Raiola enn sami strákur og sá sem vann á veitingastaðnum forðum daga. Maður sem passar upp á sína, klifrar upp stigann og vinnur mikið til að komast þangað, burtséð frá því hver stendur í vegi hans. Hann segist vinna 365 daga ársins – 120 þúsund kílómetrar í bíl og fleiri hundruð klukkustunda í flugvél – og vinna með fólki sem hugsar eins og hann. Félög eins og AC Milan og leikmenn eins og Zlatan Ibrahimovic.

Leikmennirnir sem Raiola hefur komið til AC Milan:

Urby Emanuelson frá Ajax: Hugsaður sem arftaki Ronaldinho. Margir segja þennan 24 ára leikmann vera verðandi stórstjörnu.

Robinho frá Man City: Sex mörk í átján leikjum hefur fengið marga til að gagnrýna leikmanninn. “Starf mitt felst ekki í að skora mörk, heldur að aðstoða Zlatan og Pato”.

Mark van Bommel frá Bayern München: Leikmaðurinn hefur látið fyrirliðabandið hjá Bayern af hendi og nú er spurning hvernig þessum harða Hollendingi kemur til með að farnast í liði Milan.

Dídac Vilá frá Espanyol: 21 árs gamall vinstri bakvörður. “Fínn fótur, fínn hraði,” segir stjórinn Allegri.

Rodrigo Ely frá Gremio: Það tók sinn tíma en nú er þessi 17 ára strákur orðinn leikmaður Milan. Pappírarnir fyrir þennan brasilíska miðvörð urðu klárir fyrir örfáum vikum.

Zlatan Ibrahimovic frá Barcelona: Fjölda marka og stoðsendingar í þessum fyrstu leikjum Zlatans í Milan-treyjunni.

Heimild: Aftonbladet o.fl.
banner
banner
banner