Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 25. júní 2019 15:30
Arnar Daði Arnarsson
Best í 7. umferð: Draumurinn minn að verða Íslendingur
Natasha Anasi.
Natasha Anasi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var rosa mikilvægur sigur fyrir okkur á móti góðu liði. Stjarnan eru búnar að vera flottar í sumar og það er frábært að vinna svona sterkt lið. Við vorum vel undirbúnar og einbeitingin var góð. Það voru allar í liðinu með ljósin kveikt í gær," sagði Natasha Anasi sem var stórkostleg í liði Keflavíkur í 7. umferð Pepsi Max-deildar kvenna þegar liðið sigraði Stjörnuna á heimavelli nokkuð örugglega 5-0.

„Þrátt fyrir að vera ekki fullmannaðar þá skipti það engu máli því allar sem stigu inná völlinn voru rosa tilbúnar og það sást á spilamennskunni," bætti Anasi við þegar hún var spurð út í leikinn gegn Stjörnunni. Hún segist hafa verið ánægða með sína frammistöðu í leiknum.

„Mér fannst þetta nokkuð solid í gær og finnst ég vera bæta mig í hverjum leik. Ég er sátt við það sem ég er búin að gera á tímabilinu til þessa og finnst eins og ég sé að komast í betri gír með hverjum leik sem ég spila," sagði Anasi og bætir við að það hjálpi líka til að liðið sé að bæta sig með hverju leiknum.

Þurftum að læra að vinna leiki
Anasi hefur spilað sem miðvörður nánast sinn allan feril. Hún gekk í raðir Keflavíkur fyrir tímabilið 2017 en þá var hún ólétt. Hún kom til Íslands um mitt sumar árið 2014 og gekk þá í raðir ÍBV. Þar lék hún í tvö og hálft tímabil. Í síðustu leikjum hefur hún spilað á miðjunni hjá Keflavík.

„Ég kann vel við mig á miðjunni. Ég hef alltaf verið miðvörður sem vill sækja fram á völlinn þannig ég held að ég fitti vel inn í þessa stöðu."

Keflavík sem er nýliði í deildinni hóf tímabilið á fimm tapleikjum í röð. Nú hefur liðið hinsvegar unnið síðustu tvo leiki liðsins og er komið uppúr fallsæti.

„Við þurftum einfaldlega að læra vinna leiki í þessari deild, það er aðalbreytingin. Við spiluðum oft á tíðum mjög vel í fyrstu fimm leikjunum en vorum óheppnar að ná ekki að safna fleiri stigum. Í síðustu tveimur leikjum höfum við fundið leið til þess að klára dæmið og nokkuð sannfærandi í bæði skiptin. Þessir fyrstu tveir sigrar voru mjög mikilvægir og hjálpa okkur klárlega í framhaldinu," sagði Anasi sem segir Keflavíkurliðið vera að bæta sig með hverjum leiknum.

„Við reynum að læra af þessum tapleikjum í byrjun og erum komnar með mun meira sjálfstraust. Ef við höldum áfram á þessari leið getum við náð í úrslit á móti öllum liðum í þessari deild."

Hlakka til framtíðarinnar á Íslandi
Eins og fyrr segir flutti Anasi til Vestmannaeyja um mitt sumar árið 2015. Þetta er því hennar fimmta tímabil hér á landi. Anasi hefur hægt og bítandi lært íslensku.

„Það var mjög erfitt fyrst en um leið og ég byrjaði að læra meira og reyna tala íslensku líka þá er þetta allt að koma hjá mér. Það hjálpar til að fjölskyldan mín talar íslensku við mig til þess að hjálpa mér og neyða mig til þess að verða betri. Að þjálfa stelpur í yngri flokkunum hérna í Keflavík hefur líka hjálpað mikið þar sem ég þarf að tala íslensku við þær. Ég á samt alveg langt í land ennþá , en ég er staðráðin í því að læra meira enda finnst mér mjög mikilvægt að læra tungumálið," sagði Anasi sem verður 28 ára seinna á þessu ári.

Natasha Anasi og íslenskur eiginmaður hennar, Rúnar Ingi Erlingsson eignuðust dóttur sumarið 2017. Anasi segist stefna á það að gerast íslenskur ríkisborgari.

„Dóttir mín, stjúpsonur minn og maðurinn minn eru Íslendingar og öll fjölskyldan í kringum okkur hérna í Keflavík. Auðvitað er draumurinn minn að verða Íslendingur enda er ég búin að koma mér vel fyrir hérna í samfélaginu og hlakka til framtíðarinnar á Íslandi," sagði Natasha Anasi, leikmaður Keflavíkur að lokum.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

Sjá einnig:
Best í 6. umferð - Elín Metta Jensen (Valur)
Best í 5. umferð - Cloe Lacasse (ÍBV)
Best í 4. umferð - Elín Metta Jensen (Valur)
Best í 3. umferð - Birta Guðlaugsdóttir (Stjarnan)
Best í 2. umferð - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Best í 1. umferð - Hlín Eiríksdóttir (Valur)
Athugasemdir
banner
banner
banner