Fundað um Pochettino - Man City tryggir sér undrabarn - Arsenal ætlar að styrkja hópinn
   mið 02. september 2009 11:51
Alexander Freyr Tamimi
Umboðsmaður Prince: KR er mjög illa statt fjárhagslega
Prince Rajcomar þegar hann var nýkominn til KR - hann hefur nú yfirgefið félagið eftir tæplega eitt tímabil í Vesturbænum
Prince Rajcomar þegar hann var nýkominn til KR - hann hefur nú yfirgefið félagið eftir tæplega eitt tímabil í Vesturbænum
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mark Rutgers hefur staðið sig vel í vörn KR-inga og verður hann þar áfram.
Mark Rutgers hefur staðið sig vel í vörn KR-inga og verður hann þar áfram.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Bram van Barneveld umboðsmaður Prince Rajcomar sagði við Fótbolti.net að ástæðan fyrir því að skjólstæðingur sinn hafi yfirgefið félagið hafi einungis verið fjárhagslegs eðlis. Prince skoraði einungis tvö mörk fyrir KR á tímabilinu en van Barneveld segir það þó ekki hafa verið aðalástæðuna fyrir brotthvarfinu.

Sagði hann að KR væri fjárhagslega statt á brauðfótum og að þeir væru í miklu basli með að greiða Prince þau laun sem þeir höfðu skuldbundið sig að greiða.

„Ástæðan fyrir því að Prince yfirgaf KR er fjárhagsleg. Félagið er mjög illa statt fjárhagslega og launin hans voru að valda þeim miklum vandræðum, þó svo að þau hafi ekki verið nærri því eins há og laun hans hjá Breiðablik," sagði van Barneveld við Fótbolti.net.

„Við sáum sérstaklega fram á það að það yrði ómögulegt fyrir þá að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar, nú þegar tímabilinu lýkur fljótlega og hléið byrjar. Þannig að Prince ákvað að hjálpa til og yfirgefa félagið til að koma í veg fyrir að fjárhagsstaða þeirra versnaði enn frekar."

Van Barneveld segist vera að leita að nýju félagi handa Prince en segir þó að ekkert sé í gangi eins og er. Hann útilokar þó ekki möguleikann á því að leikmaðurinn muni snúa aftur til Íslands og spila þar á næsta tímabili.

„Það er ekkert í gangi í augnablikinu en ég mun að sjálfsögðu reyna að finna nýtt félag fyrir hann og vonandi verður það í sama gæðaflokki og KR en betur statt fjárhagslega. Ég útiloka ekki að hann muni spila áfram á Íslandi, það gæti vel verið að hann snúi aftur til landsins í janúar þar sem hann elskar Ísland og fólkið sem býr hérna."

Van Barneveld tjáði sig einnig um skjólstæðing sinn Mark Rutgers sem framlengdi nýlega samning sinn hjá KR og verður hann þar áfram á næsta tímabili. Rutgers hefur staðið sig vel í vörn KR-inga og var hann áfram hjá félaginu þrátt fyrir áhuga annarra liða utan landsteinanna.

„Mark er mjög ánægður hjá KR og á Íslandi og þess vegna ákvað hann að framlengja samning sinn hjá félaginu, jafnvel þó svo að hann hafi þurft að taka á sig launalækkun út af fjárhagsvanda félagsins," bætti hann við.

„Önnur lið frá Skandinavíu og Hollandi sýndu honum einnig áhuga en við töldum að hann ætti besta möguleika á því að bæta sig sem leikmann sem og manneskju hjá KR. Það mun vonandi verða til þess að hann geti tekið næsta skref í enn stærri deild í framtíðinni.“

„Þjálfarateymið hjá KR er frábært og þess vegna mun hann bæta sig sem fótboltamaður og við teljum að hann gæti bætt sig mjög mikið líkamlega vegna þess hversu góður þolþjálfarinn er.“

„Þegar við tökum mið af öllu þessu erum við himinlifandi með það að Mark verði áfram hjá KR og teljum við að það verði bæði honum og félaginu til góðs,"
sagði van Barneveld að lokum við Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner