Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 01. maí 2020 19:00
Ívan Guðjón Baldursson
Salman brýtur reglur úr handbók ensku úrvalsdeildarinnar
Salman borgar 300 milljónir punda fyrir Newcastle. Dropi í hafið fyrir fjárfestingasjóð sem er metinn á á rúmlega 250 milljarða.
Salman borgar 300 milljónir punda fyrir Newcastle. Dropi í hafið fyrir fjárfestingasjóð sem er metinn á á rúmlega 250 milljarða.
Mynd: Getty Images
Stuðningsmenn Newcastle eru langflestir hlynntir eigendaskiptunum.
Stuðningsmenn Newcastle eru langflestir hlynntir eigendaskiptunum.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mikið hefur verið rætt um yfirvofandi eigendaskipti Newcastle United þar sem Mohamed Bin Salman, krónprins Sádí-Arabíu, notar fjárfestingarsjóð ríkisins til að borga fyrir félagið.

Það getur þó ekki hver sem er átt félag í ensku úrvalsdeildinni. Áður en eigendaskipti hafa opinberlega gengið í gegn þarf stjórn ensku úrvalsdeildarinnar að samþykkja nýja eigendur.

Það er gert með því að skoða tvo þætti, sakamálasögu og fjármál. Þeir eru ekki margir sem hafa fallið á þessu prófi en Richard Scudamore, fyrrum stjórnarformaður úrvalsdeildarinnar, telur að þeir séu á milli 10 og 20 talsins.

„Við leggjum mikið á okkur til að skoða bakgrunn mögulegra eigenda. Við erum með mjög gott upplýsinganet," sagði Scudamore í viðtali fyrir nokkrum árum.

Mohamed Bin Salman, 34 ára, leiðir fjárfestingarhópinn en hann mun ekki taka sér sæti sem forseti Newcastle, enda hefur hann í nógu að snúast í heimalandinu þar sem hann er bæði varaforseti og varnarmálaráðherra.

Það eru tvær meginástæður fyrir því að enska úrvalsdeildin getur hafnað eigendaskiptunum enda hefur Salman nokkuð skuggalega sögu að baki sér. Í handbók ensku úrvalsdeildarinnar koma fyrir ýmsar reglur varðandi eigendaskipti.

Ein reglan segir að eigandi félags má ekki vera í þeirri stöðu að geta haft áhrif á eiganda annars félags í sömu deild.

Þetta gengur ekki upp því eigandi Sheffield United er einnig sádí-arabískur prins, Prins Abdullah. Það er nokkuð ljóst að Salman gæti auðveldlega nýtt vald sitt til að hafa áhrif á ákvarðanatöku Abdullah.

Annað sem gæti komið í veg fyrir eigendaskiptin er morðið á Jamal Khashoggi, fréttamanni Washington Post, í sendiráði Sádí-Arabíu í Tyrklandi í október 2018.

Salman er talinn að hafa fyrirskipað morðið og komust langflestar óháðar rannsóknir, framkvæmdar meðal annars af Sameinuðu þjóðunum og bandarísku leyniþjónustunni CIA, að sömu niðurstöðu.

Salman og ríkisstjórnin í Sádí-Arabíu neita því að krónprinsinn hafi komið nálægt morðinu.

Það er þó mikilvægt að taka fram að ýmsir óprúttnir aðilar hafa fengið að kaupa úrvalsdeildarfélög í gegnum tíðina án þess að vera stöðvaðir. Gott dæmi er Thaksin Shinawatra, fyrrum forsætisráðherra Taílands, sem keypti Manchester City árið 2007.

Shinawatra var með spillingarkæru á bakinu þegar hann tók við sem eigandi Man City og fékk úrvalsdeildin send bréf frá ýmsum mannréttindasamtökum til að stöðva skiptin. Þau gengu þó í gegn og seldi Shinawatra félagið ári síðar, rétt áður en hann var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir spillingu.

Carson Yeung keypti Birmingham City 2009 og virtist bakgrunnur hans hæfa úrvalsdeildinni. Fimm árum síðar sagði hann af sér og var dæmdur fyrir stórfelldan peningaþvott.

Ljóst er að Salman getur sett pressu á ensku ríkisstjórnina ef úrvalsdeildin hafnar eigendaskiptunum. Það er vegna mikilvægra og viðkvæmra viðskiptasamninga milli Englands og Arabíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner