banner
   lau 01. október 2022 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Fangelsisdóm fyrir að læsa sig við markstöng gegn Newcastle
Mynd: gbnews
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson

Hinn 21 árs gamli Louis McKechnie hefur hlotið sex vikna fangelsisdóm fyrir að binda sig við markstöng á leik Everton gegn Newcastle á Goodison Park 17. mars. McKechnie hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í júlí og er því frjáls ferða sinna. Honum er gert að greiða 550 pund í heildina, eða tæplega 100 þúsund krónur.


McKechnie notaði járnlás til að binda hálsinn á sér við markstöngina og stöðvaði þannig leikinn. Þetta gerði hann til að vekja athygli á styrktaraðilum Newcastle United, olíufyrirtækinu Saudi Aramco. McKechnie klæddist bol sem stendur á Just Stop Oil þegar hann lét stöðva leikinn á Goodison Park.

McKechnie sagði í réttarhöldunum að hann hafði vonast til að bjarga milljörðum mannslífa með þessum mótmælum sínum. 

Það tók um tíu mínútur fyrir vallarstarfsmenn að klippa lásinn af og var bætt fjórtán mínútum við venjulegan leiktíma.

McKechnie sagði fyrir framan dómarann að Just Stop Oil væru samtök fólks sem vilja sjá ríkisstjórn Bretlands taka stærri skref í átt að sjálfbærni. Samtökin eru gegn jarðefnaeldsneyti og vilja útrýma því með öllu.

Þetta er ekki í fyrsta eða annað sinn sem aðgerðarsinninn McKechnie hlýtur dóm því hann hefur áður verið dæmdur fyrir innbrot á einkalóð (e. trespassing) og að stöðva bílaumferð á þjóðveginum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner