Nýtt útlit á heimasíðu KSÍ var opinberað í dag, búið er að uppfæra síðuna. Samhliða hefur verið tekið í notkun nýtt smáforrit sem heitir einfaldlega 'KSÍ'. Til gamans má geta að fyrrum fótboltamaðurinn, Jón Kári Eldon, kom að hönnun nýju síðunnar.
Fótbolti.net hafði samband við Ómar Smárason, sviðsstjóra Markaðssviðs hjá KSÍ, og var hann spurður út í nýju síðuna.
Fótbolti.net hafði samband við Ómar Smárason, sviðsstjóra Markaðssviðs hjá KSÍ, og var hann spurður út í nýju síðuna.
Grafískari vefur og betur hannaður fyrir farsíma
„Útlitsbreytingin er auðvitað mikil, enda er nýi vefurinn að mörgu leyti mun grafískari en sá eldri og einnig betur hannaður fyrir farsíma. Uppsetningin og grindin er líka önnur, þó upplýsingarnar sem þar eru séu að miklu leyti svipaðar og á fyrri vef. Vefsíður allra knattspyrnusambanda í heiminum hafa ákveðnu hlutverki að gegna, þær eru líka umfangsmiklar og geta verið flóknar, þannig að við reynum að hólfa þetta vel niður og vera með gögn og upplýsingar sem eru mikið sóttar, og reynum að lágmarka síður sem eru lítið sóttar. Það má líka nefna að á nýja vefnum er beintenging við okkar miðasölukerfi, og beintenging við vefverslun þar sem hægt að er kaupa landsliðsfatnað og ýmsan varning, og meiri tengsl við samfélagsmiðla KSÍ," segir Ómar aðspurðru út í helstu breytingarnar á vefnum.
Nýja appið
Er einhver breyting varðandi leikskýrslur og útlit á þeim?
„Upplýsingarnar og gögnin eru svipuð eða þau sömu, en framsetningin og útlitið er nýtt. Stærsta breytingin hvað þetta varðar er auðvitað KSÍ-appið sem við erum að taka í notkun þar sem knattspyrnuáhugafólk getur fylgst með tilteknu liði, móti eða leikmönnum. Foreldrar geta til dæmis merkt sína krakka í favorites og þannig fylgst með þeirra mótum og leikjum. Þetta app er í raun algjör bylting fyrir alla sem vilja fylgjast með íslenskum fótbolta. Appið er nú þegar aðgengilegt fyrir Android síma, en iPhone hefur tekið lengri tíma en reiknað var með, vonandi leysist það nú fljótlega."
Allir vefir hafa sinn líftíma
Af hverju var farið í breytingar?
„Allir vefir hafa sinn líftíma og sjálfsagt er engin ein þumalputtaregla um það hvenær sé kominn tími til að gera breytingar - hvort það séu 3 ár eða 5 eða 7 eða hvað - eflaust eru ýmis sjónarmið þar. KSÍ hefur á nokkurra ára fresti farið í breytingar á sínum vefsíðum og það var einfaldlega kominn tími á nýjan vef. Vinnan við þennan nýja vef hefur staðið yfir í langan tíma og núna er loksins komið að því að setja hann í loftið."
„Við keyrðum vinnu við nýja vefinn samhliða innleiðingu á nýju móta- og upplýsingakerfi (COMET) og ætlunin var að setja bæði vefinn og COMET í loftið á sama tíma - í lok árs. Þegar upp var staðið þá dróst vefurinn aðeins, á meðan innleiðing COMET-mótakerfisins var samkvæmt áætlun, sem myndaði smá millibilsástand, en því gati hefur nú verið lokað."
Hvað með félagaskiptin?
Ómar var spurður út í 'Félagaskipti' undirsíðuna á vefnum. Áður var hægt að sjá þau félagaskipti sem hefðu farið í gegn hjá íslenskum félögum, en slíkt er ekki hægt að sjá á nýja vefnum.
„Vefir eru auðvitað í stöðugri þróun og síður innan vefsins geta tekið breytingum með tíð og tíma. Eins og ég nefndi hér að framan þá reynum við að lágmarka síður sem eru lítið sóttar og það er líka vert að hafa í huga hvort eðlilegt sé að hafa opið aðgengi á vefnum að ýmsum upplýsingum um einstaklinga. Varðandi félagaskipti sérstaklega þá getur hvert félag í dag skoðað félagaskipti til eða frá því félagi í gegnum aðgang sinn að COMET-kerfinu, þannig að aðgengi félaganna sjálfra er til staðar. Við útilokum samt ekkert í þessum efnum í framtíðinni, það kann vel að vera að það bætist við síður á nýja vefinn þegar fram líða stundir," segir Ómar.
Athugasemdir


