Bruno vill ekki fara frá Man Utd - Enzo Fernandez orðaður við PSG - Atletico vill Gomes
banner
   fim 15. janúar 2026 11:00
Elvar Geir Magnússon
Fordæmalaus niðurlæging Ajax sem tapaði 6-0 og endurgreiðir stuðningsmönnum
Leikmenn Ajax eftir útreiðina í gær.
Leikmenn Ajax eftir útreiðina í gær.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Hollenskir fjölmiðlar tala um fordæmalausa niðurlægingu Ajax sem fékk 6-0 skell gegn AZ Alkmaar í hollenska bikarnum í gær.

Ajax lenti undir eftir þriggja mínútna leik og á endanum fékk írski sóknarmaðurinn Troy Parrott að eiga boltann því hann skoraði þrennu.

Þetta var leikur í 16-liða úrslitum bikarsins og fjórða tímabil Ajax í röð án titils svo gott sem staðreynd. Liðið er 16 stigum á eftir toppliði PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni.

Lömb leidd til slátrunar
Ajax var 3-0 undir í hálfleik í gær og missti svo mann af velli með rautt spjald eftir hlé. Hollenska blaðið AD segir að leikmenn Ajax hafi verið eins og lömb leidd til slátrunar.

Félagið hefur boðist til að endurgreiða þeim stuðningsmönnum sem ferðuðust til Alkmaar.

Ajax hefur mátt muna sinn fífil fegurri. Liðið komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2019 en síðustu ár hafa verið erfið. Það er bráðabirgðastjórinn Fred Grim sem stýrir Ajax í dag en hann er áttundi stjóri liðsins síðan Erik ten Hag fór 2022.

Ajax varð Hollandsmeistari 2022 en hefur ekki unnið titil síðan

„Við skömmumst okkar eftir þessi úrslit. Við teljum að við eigum að borga kostnað þeirra stuðningsmanna sem ferðuðust á þennan leik," segir Grim.
Athugasemdir
banner
banner