Bruno vill ekki fara frá Man Utd - Enzo Fernandez orðaður við PSG - Atletico vill Gomes
   fim 15. janúar 2026 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Umfjöllun
Hvaða félög eru líklegust til að reyna við Gumma Tóta?
Lék sinn 15. landsleik fyrir tæpum tveimur árum síðan.
Lék sinn 15. landsleik fyrir tæpum tveimur árum síðan.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fór út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2012 og lék erlendis í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kýpur og Armeníu.
Fór út í atvinnumennsku eftir tímabilið 2012 og lék erlendis í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kýpur og Armeníu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Uppalinn á Selfossi og lék síðast með ÍBV á Íslandi.
Uppalinn á Selfossi og lék síðast með ÍBV á Íslandi.
Mynd: Guðmundur Karl
Guðmundur Þórarinsson er mættur heim til Íslands og ætlar sér að spila hér á landi á komandi tímabili. Hann fékk samningi sínum við armenska félagið Noah rift og er frjálst að semja við nýtt félag.

Ríkharð Óskar Guðnason, vinur Guðmundar, tjáði sig um stöðu hans í Þungavigtinni í gær.

„Þetta hafa verið viðræður við Noah, það liggur fyrir að Gummi og unnusta hans eru að fara eignast sitt annað barn. Heimahagar kölluðu á þau bæði og þar sem samningur hans átti ekki að renna út fyrr en í vor þá fundaði hann með forsvarsmönnum Noah sem voru mjög faglegir. Grunnurinn var lagður í byrjun desember. Noah báðu hann um að gefa sér smá tíma, fundu svo mann í staðinn fyrir hann og þá var gengið frá þessu. Virkilega miil fagmennska hjá félaginu, Gummi er núna laus allra mála," sagði Rikki.

„Eina sem ég veit er að Gummi Tóta ætlar að taka fótboltann 'all-in' þar til hann leggur skóna á hilluna. Hann er í toppformi og verður 34 ára í apríl. Hann er ekki að koma heim saddur og til að vera í rólegheitum, hann langar að vinna titla," sagði Rikki sem staðfesti að Guðmundur ætli sér að búa á höfuðborgarsvæðinu, en þó ekki í Reykjavík.

Tvö líklegri en önnur
Undirritaður rýndi í liðin í deildinni og fékk þjálfarann Harald Árna Hróðmarsson sér til aðstoðar. Hvaða félög eru líklegust til að reyna við Gumma Tóta?

Byrjað var að horfa í leikstöðuna. Guðmundur er í grunninn miðjumaður en hefur á atvinnumannaferlinum spilað talsvert sem vinstri bakvörður. Það var mat okkar að hann liti á sjálfan sig sem miðjumann á Íslandi, með möguleika á því að leysa bakvörðinn.

Til þess að vinna titla er vænlegast að fara í Víking, liðið er ríkjandi meistari og var í efsta sæti í ótímabæru spánni fyrr í þessum mánuði. Leikmannahópur Víkings er ansi öflugur og barátta milli manna um að komast í leikdagshópinn. Nokkrir leikmenn Víkings hafa verið orðaðir við atvinnumennsku erlendis og það gæti búið til pláss í hópnum fyrir annan öflugan leikmann.

Breiðablik kaus að leyfa Gísla Eyjólfssyni að fara til ÍA svo fyrirfram er ólíklegt að Blikar reyni við Guðmund.

Haraldur er á því að líklegustu félögin til þess að reyna við Guðmund séu Stjarnan og KR. Það sé pressa á Jökli Elísabetarsyni, þjálfara Stjörnunnar, og þarna sé leikmaður í boði sem styrkir liðið. Stjarnan er með marga miðjumenn en á pappír er Guðmundur það góður að hann færi í liðið bæði sem vinstri bakvörður og miðjumaður.

Guðmundur hefur verið orðaður við KR sem hefur verið að spila 3-4-3 í upphafi undirbúningstímabilsins og Guðmundur gæti komið inn á miðjuna með Arnóri Ingva Traustasyni. Á ferlinum hefur Guðmundur líka leyst vinstri hafsentinn í þriggja hafsenta kerfi.

Haraldur telur að Valur og ÍA gætu einnig reynt við Guðmund. ÍA hefur verið í leit að varnarsinnuðum miðjumanni, 'sexu', og Guðmundur gæti komið inn í það hlutverk. Hann hefur verið orðaður við Val og félagið gæti þá séð Guðmund sem kost í vinstri bakvörðinn og einnig til að auka breiddina á miðsvæðinu.

Við vorum sammála um að FH þyrfti mest á Guðmundi að halda, væri nauðsynlegt að fá inn reynslumikinn mann inn í hópinn eftir að Björn Daníel Sverrisson kvaddi, en stefna FH er að yngja liðið, og út frá því er ólíklegt að Guðmundur færi í FH.

KA mun sennilega reyna við Guðmund, hann yrðir gríðarlegur styrkur fyrir hópinn fyrir norðan en spurning hvort félagið nái að sannfæra hann um að flytja norður.

Hann er fyrrum leikmaður ÍBV en við teljum ansi ólíklegt að hann endi þar. Fram, Þór og Keflavík eru líka ólíklegir kostir.
Athugasemdir
banner
banner
banner