Bruno vill ekki fara frá Man Utd - Enzo Fernandez orðaður við PSG - Atletico vill Gomes
banner
   fös 16. janúar 2026 05:55
Ívan Guðjón Baldursson
Afríkukeppnin um helgina - Leikið um gull og brons
Brahim Díaz er markahæstur í Afríkukeppninni með 5 mörk í 6 leikjum.
Brahim Díaz er markahæstur í Afríkukeppninni með 5 mörk í 6 leikjum.
Mynd: EPA
Sadio Mané skoraði sigurmarkið gegn Egyptalandi í undanúrslitunum.
Sadio Mané skoraði sigurmarkið gegn Egyptalandi í undanúrslitunum.
Mynd: EPA
Tveir síðustu leikir Afríkukeppninnar fara fram um helgina áður en leikmenn fjögurra árangursríkustu landsliðanna geta snúið aftur til félagsliða sinna í hinum ýmsu deildum víða um heim.

Egyptaland og Nígería eigast við í bronsleiknum á morgun þar sem þau keppast um þriðja sætið. Mohamed Salah og Victor Osimhen eigast þar við en þeir deila öðru sætinu sem markahæstu leikmenn keppninnar.

Báðir eru þeir búnir að skora fjögur mörk á mótinu, Osimhen í sex leikjum en Salah aðeins í fimm þar sem hann var hvíldur í lokaleik Egyptalands í riðlakeppninni.

Osimhen er kominn með tvær stoðsendingar og Salah eina, en Ademola Lookman samherji Osimhen hjá Nígeríu er búinn að skora þrjú mörk og leggja fjögur upp.

Stjörnur mætast í þessum æsispennandi bronsleik en hápunktur mótsins er svo á sunnudaginn, þegar heimamenn í Marokkó spila úrslitaleikinn við Senegal. Þar keppast menn um gullið.

Marokkó hefur átt magnað Afríkumót á heimavelli og er liðið aðeins búið að fá eitt mark á sig, í jafntefli gegn Malí í riðlakeppninni.

Marokkó sló Nígeríu úr leik í undanúrslitum eftir vítaspyrnukeppni og var sigurinn verðskuldaður þar sem Nígeríumenn sáu varla til sólar gegn sterku liði heimamanna.

Senegal er aðeins búið að fá tvö mörk á sig á mótinu, gegn Austur-Kongó í riðlakeppninni og svo gegn Súdan í 16-liða úrslitum.

Það má því búast við gríðarlega spennandi úrslitaleik á milli tveggja afar sterkra fótboltaþjóða.

Laugardagur
16:00 Egyptaland - Nígería

Sunnudagur
19:00 Senegal - Marokkó
Athugasemdir
banner
banner