Baleba líklegur til Man Utd í sumar - Murillo og Hackney orðaðir við Man Utd - Aston Villa vill Abraham
   fös 16. janúar 2026 12:30
Kári Snorrason
Viðtal
Hver er Íslendingurinn sem þjálfar AB? - „Finnst þægilegra að vinna í skuggum“
Fannar Berg Gunnólfsson tók við danska liðinu AB eftir að Jói Kalli hélt heim og tók við FH.
Fannar Berg Gunnólfsson tók við danska liðinu AB eftir að Jói Kalli hélt heim og tók við FH.
Mynd: Aðsend
Fannar (annar frá vinstri) eftir leik með Reyni Sandgerði.
Fannar (annar frá vinstri) eftir leik með Reyni Sandgerði.
Mynd: Reynir.is
Fannar stýrði U-15 liði Molde.
Fannar stýrði U-15 liði Molde.
Mynd: Panorama
„Við vorum með mjög spennandi Skagalið þarna, margir leikmenn sem eru þar enn í dag.“
„Við vorum með mjög spennandi Skagalið þarna, margir leikmenn sem eru þar enn í dag.“
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fannar kom inn í teymið hjá AB og Jóa Kalla sumarið 2024.
Fannar kom inn í teymið hjá AB og Jóa Kalla sumarið 2024.
Mynd: Aðsend
„Það er auðvitað mjög leiðinlegt að Jói hafi þurft að fara heim en ég skil hans ástæður.“
„Það er auðvitað mjög leiðinlegt að Jói hafi þurft að fara heim en ég skil hans ástæður.“
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fyrsti leikur AB í deild undir stjórn Fannars fer fram þann 6. mars.
Fyrsti leikur AB í deild undir stjórn Fannars fer fram þann 6. mars.
Mynd: Aðsend
Nafnið Fannar Berg Gunnólfsson hringir ef til vill ekki mörgum bjöllum hjá íslenskum fótboltaáhugamönnum. Þrátt fyrir að vera aðeins 42 ára gamall hefur hann byggt upp langan og fjölbreyttan feril utan Íslands.

Hann hefur á undanförnum árum haslað sér völl í Noregi og Danmörku og tók nýverið við sem aðalþjálfari AB, eftir að Jóhannes Karl Guðjónsson sneri heim og tók við FH.

Fótbolti.net ræddi við Fannar, sem fór yfir ferilinn, flakkið milli landa og verkefnið með AB sem hann hefur nú tekið að sér.

Komið víða við
Fannar er uppalinn á suðurnesjunum
„Ég er búinn að vera á smá flakki. Ég flutti til Montreal í Kanada þegar ég var rúmlega tvítugur, síðan flytjum við til Noregs og er þar í sex ár. Ég hafði áður þjálfað 2. flokkinn hjá Fylki og var einn af stofnendum Elliða, venslaliði Fylkis.“

Fannar flutti síðar út til Montreal í Kanada en eftir stutt stopp vestanhafs hóf hann nám í íþróttafræði við HR. Eftir útskrift þaðan lá leiðin til Noregs þar sem hann nam íþróttastjórnun við háskólann í Molde. Þar vakti Fannar athygli Óskars Solenes, lektors við skólann, sem þótti mikið til Fannars koma og hvatti hann til að sækja um starf í akademíu Molde.

„Ég ætlaði mér ekkert að þjálfa með í fyrstu. En ég þurfti að leita mér að vinnu og sæki um hjá Molde. Ég enda með að fá samningsboð hjá akademíunni og tek við U-15 liðinu.“

Morgunkaffið opnaði dyr
„Þegar ég byrja þar mæti ég alltaf snemma upp á æfingasvæðið, áður en ég fer í skólann, og kynnist Tor Ole Skullerud, þáverandi þjálfara Molde.

Við vorum tveir fyrstu sem mættum snemma á morgnana og við fengum okkur oft kaffibolla saman. Við ræðum mikið saman og hann endar á að bjóða mér starf sem leikgreinandi Molde. Þetta gerlaðist ansi fljótt. Áður en ég vissi af þá var maður byrjaður að leikgreina Ajax, Sevilla og Celtic.“


Samhliða því var Fannar þjálfari í akademíu Molde og enn í skóla. Hann steig því örlítið til baka úr leikgreiningunni.

„Ég vildi þá fá varalið Molde en fékk það ekki. Maður var ungur og langaði í hluti, svo að ég sæki um aðra vinnu og tek við Staal Jørpeland í 3. deild í Noregi.

Tekinn inn í Skagateymið
Fannar stýrði Staal í um þrjú ár áður en hann sneri aftur heim til Íslands vegna kórónuveirufaraldursins.

Tengdafjölskyldan er af Skaganum og það spurðist út að ég væri kominn aftur heim. Ég ræði svo við Jóa Kalla, þáverandi þjálfara ÍA, og er í kjölfarið fenginn inn í teymið hjá Skagamönnum. Við vorum með mjög spennandi Skagalið þarna, margir leikmenn sem eru þar enn í dag.“

Fannar var í þjálfarateymi ÍA í tvö ár en Skagamenn enduðu í 8. sæti árið 2020 og ári seinna hafnaði liðið í 9. sæti.

Aftur til Noregs
Eftir tvö ár á Íslandi fór fannar aftur út til Noregs og tekur við 3. deildarliðinu Volda og stýrir þeim í um tvö ár.

„Í Noregi lendi ég svo í því að mölbrjóta á mér fótinn og öklann. Ég fer í tvær aðgerðir en reyni samt sem áður að djöflast í gegnum þetta. Var einhvern veginn með allan klúbbinn á bakinu.

Ég var búinn að vera á hækjum í fjóra mánuði og hafði bara misst út eina æfingu. Eftir hálft tímabil brenni ég yfir. Í kjölfar þess stíg ég frá borði í september og tek mér veikindarleyfi þar sem ég reyni að jafna mig.


Sameinaðir á ný í Danmörku
„Þegar ég er að leita að snýju hlutverki í maí hringir Jói Kalli í mig og tilkynnir mér að hann er að taka við AB. Og spyr mig hvort að ég gæti aðstoðað hann í þrjár vikur. Klára tímabilið. Það var eitthvað sem ég var meira en til í og einhvern veginn small allt saman.

Ég og Jói endurnýjum kynnin og komnir til starfa í ótrúlega flottum klúbbi. Það endar með því að ég skrifa undir þriggja ára samning við AB. Ég ætlaði mér ekkert að fara frá Noregi. En það er gaman að vinna með Jóa og við vinnum vel saman.“


Tímafrekt verkefni
„Þegar við komum fyrst þá voru leikmenn frá tólf, þrettán löndum. Við tókum aðeins til í þessu og vildum halda í danskan kúltúr. Síðan fórum við að leggja aukna áherslu á orkumikinn pressufótbolta sem tók okkur góðan tíma. Við fórum í gegnum tímabil í fyrra þar sem við vinnum ekki í tíu leiki.

Það var samt aldrei nein pressa frá félaginu, því þeir sáu að við vorum á einhverri vegferð. Á síðastliðnu ári höfum við spilað 36 leiki og vinnum 27 þeirra. Þó ég sé ekki mikill aðdáandi orðsins vegferð þá tók það okkur tíma að komast á þann stað þar sem við erum í dag.“


Tekur við stjórnartaumunum
Jói Kalli stýrði liðinu fram að jólafríi í dönsku deildinni en hann hætti sem þjálfari liðsins vegna fjölskylduástæðna. Fannar tók við liðinu.

„Við unnum mikið saman. Ég vissi það að félagið vildi halda því gangandi sem við höfðum unnið að frá því að við tókum við. Það er auðvitað mjög leiðinlegt að Jói hafi þurft að fara heim, en ég skil hans ástæður. Þegar þetta lá fyrir þá spurði hann mig hvernig við vildum hafa þetta og það voru allir á sama máli - Vildum klára þetta verkefni saman fram að jólum áður en hann fór á vit nýrra ævintýra.“

AB er á toppi dönsku C-deildarinnar, með fjögurra stiga forskot á liðið í öðru sæti. Deildin hefst aftur 6. mars og er fyrsti leikur AB degi síðar. Fannar segir markmiðið skýrt.

„Það er enginn sem talar um neitt annað. Við vitum að það verður áskorun í fyrsta leiknum, sem verður í mars. Lið munu sjá að risastóri karakterinn sem Jói er hefur farið. Við erum meðvitaðir um það að lið munu mæta kokhraust fyrstu fjóra, fimm leikina.“

Fylgist vel með Íslandi
„Ég er alltaf með öll augu á íslenska boltanum, skemmtileg og sjarmerandi deild. Eins og hópurinn er í dag hjá okkur þá eru ekki miklar breytur sem við þurfum á að halda. Við tókum tvo nýja leikmenn inn og létum þrjá fara.

Ef við förum í 1. deildina þá munum við gera einhverjar breytingar á hópnum og erum klárlega með augun á íslenskum markaði. Það eru margir frábærir og frambærilegir íslenskir menn og þeir eru í miklum metum í Skandinavíu.“


Meðal nafna sem hafa verið orðuð við AB er Kári Sigfússon, sem lék síðast með Keflavík en er samningslaus. Þá er Adam Ingi Benediktsson og Ægir Jarl Jónasson á mála hjá félaginu. Ágúst Eðvald Hlynsson var jafnframt leikmaður liðsins áður en hann sneri aftur heim síðasta sumar.

Hefur komið til greina að taka við liði á Íslandi?

„Það hefur komið ein og ein hringing. En ég er ekki mikið fyrir það að trana mér fram, finnst þægilegra að vinna í skuggum. Ég hef alveg fengið hringingar, en eins og staðan hefur verið á fjölskyldunni erum við ekkert á leiðinni heim. Okkur líður mjög vel hér í Skandinavíu.“
Athugasemdir
banner
banner
banner