Eftir æfingaleik Brann og Fyllingsdalen. Aron er í treyju Fyllingsdalen og Niklas Jenssen Wassberg er í rauðri treyju Brann.
Aron Jónsson gekk í vikunni í raðir FH. Aron er 21 árs miðvörður sem heldur í Hafnarfjörðinn eftir tvö ár með Aftureldingu í Mosfellsbæ.
Hann byrjaði að æfa fótbolta á Íslandi en svo var hann í Noregi í rúman áratug áður en hann sneri aftur til Íslands. Aron og Kristján Snær Frostason voru tilkynntir sem nýir leikmenn FH á þriðjudag. Báðir eru þeir ungir, Aron fæddur 2004 og Kristján Snær 2005, það er yfirlýst stefna FH að spila mikið á ungum leikmönnum og var Jóhannes Karl Guðjónsson, Jói Kalli, ráðinn þjálfari FH í vetur til að fylgja þeirri stefnu.
Fótbolti.net ræddi við Aron í dag.
Hann byrjaði að æfa fótbolta á Íslandi en svo var hann í Noregi í rúman áratug áður en hann sneri aftur til Íslands. Aron og Kristján Snær Frostason voru tilkynntir sem nýir leikmenn FH á þriðjudag. Báðir eru þeir ungir, Aron fæddur 2004 og Kristján Snær 2005, það er yfirlýst stefna FH að spila mikið á ungum leikmönnum og var Jóhannes Karl Guðjónsson, Jói Kalli, ráðinn þjálfari FH í vetur til að fylgja þeirri stefnu.
Fótbolti.net ræddi við Aron í dag.
Leist best á FH
„Að vera mættur í FH er mjög góð tilfinning. FH hafði samband við mig og kynnti mér fyrir verkefninu og mér leist vel á það og einnig er leikstílinn sem þeir vilja spila að henta mér vel. Já, það voru aðrir kostir í boði, en mér leist best á FH," segir Aron.
„Það var ekki auðvelt að segja skilið við Aftureldingu, og það var nýr samningur á borðinu frá þeim. Ég átti góð samtöl við Magga (Magnús Má Einarsson) þjálfara, Davíð Þór (Viðarsson, yfirmann fótboltamála hjá FH), umboðsmanninn minn og foreldra mína en það var alltaf ég sem tók loka ákvörðunina og mér fannst FH vera rétt skref fyrir mig."
Lærdómsríkt tímabil
Aron var spurður út í tímabilið 2025 með Aftureldingu. Það var fyrsta tímabil félagsins og hans sjálfs í efstu deild. Hann byrjaði fjórtán leiki og kom þrisvar sinnum inn af bekknum.
„Tímabilið 2025 var bæði skemmtilegt, fyrsta skipti í Bestu og mikil stemning innan liðsins og í bænum, en einnig var það lærdómsríkt."
Hefðir þú viljað spila meira? „Auðvitað vill maður spila alla leiki, það vilja allir."
Hvernig kom til að Aron, sem á að baki tvo leiki fyrir U19 landsliðið, samdi við Aftureldingu fyrir tímabilið 2024?
„Ég fékk mjög svo óvænt skilaboð frá Magga á insta í desember 2023 og svo gerðust hlutirnir frekar hratt. Við fjölskyldan vorum á leiðinni til Íslands í jólafrí og það var ákveðið að ég yrði svo eftir á Íslandi og myndi æfa og taka æfingaleik með Aftureldingu."
„Eftir þann tíma samdi ég við þá. En hvernig Afturelding fann mig, það er best að senda línu á Magga og spyrja hann."
Var í mjög sterkum árgangi í Noregi
Aron var spurður út í bakgrunninn, hver er hans tenging við íslenska boltann og er hann fæddur í Noregi?
„Tenging mín við íslenska boltann hefur verið lítil fyrir utan tvö ár í FH 4-6 ára með Frikka Dór sem þjálfara. Fjölskyldan átti heima í Hafnarfirði og við flytjum svo til Bergen 2011, ég þá 6 ára, og æfði ég með Fyllingsdalen upp yngri flokkana þar. Fyllingsdalen var með mjög sterkan 2004 árgang og unnum við nánast allt sem var hægt að vinna innan Noregs og einnig á sterkum mótum erlendis."
„Árið 2021 gerðu ég og tveir vinir mínir úr Fyllingsdalen samning við Brann. Ég var lánaður til baka í Fyllingsdalen í eitt ár. Þar var ég með mjög gott þjálfarateymi. Allt voru þetta þjálfarar sem hafa átt góðan feril sem leikmenn hjá Brann sem t.d. Teitur Þórðar þjálfaði á sínum tíma. Það er nefnilega ekkert sjálfgefið að vera „heppinn" með þjálfara þar sem að það er mjög algengt að þjálfarar yngri flokka í Noregi eru foreldrar í sjálfboðavinnu."
Mjög þakklátur
Hvernig fannst þér tíminn í Mosfellsbæ?
„Fyrst vil ég segja að ég er mjög stoltur að hafa verið partur af liði Aftureldingar, hafa skrifað söguna með þeim og komast í fyrsti skipti upp í Bestu og svo spila með þeim í Bestu deildinni. Þessi tvö ár hafa gefið mér mikið. Ég er mjög þakklátur fyrir strákana í liðinu og fyrir alla sem tóku á móti 19 ára strák sem var að flytja í fyrsta skipti að heiman."
Íslenskan hjá Aroni er góð, hann segir að hún hafi orðið betri á síðustu tveimur árum og það hafi hjálpað að hann hefur unnið sem stuðningsfulltrú með fram því að spila fótbolta.
Stefnir á Evrópusæti
Að lokum, hver eru markmiðin með FH?
„Það sem ég vil afreka með FH er auðvitað að berjast á toppnum í deild og bikar. Markmiðið er að tryggja sér sæti í Evrópukeppninni," segir Aron.
Athugasemdir




