KR er búið að gefa út tilkynningu um samstarf við fótboltaakademíu í Gana og munu tveir ganverskir leikmenn koma í Vesturbæinn á næstu vikum.
KR hefur stofnað til samstarfs við Field Masters Academy með það sem markmið að styðja við menntun og fótboltaiðkun ungra leikmanna í Gana, jafnframt því að skapa raunhæfan vettvang fyrir efnilega leikmenn til að stíga sín fyrstu skref í Evrópu.
Meðal leikmanna sem hafa komið úr Field Masters Academy eru Nathan Opoku (Leicester), Richmond Gyamfi (AGF) og Kamal Sowah (NAC Breda). Sá síðastnefndi skipti yfir í Right To Dream akademíuna frægu eftir að hafa æft með Field Masters í nokkur ár.
Þjálfarar KR og Field Masters akademíunnar munu eiga í virku samstarfi og verða skipulagðar heimsóknir á milli landa.
„Við á Íslandi erum framarlega á mörgum sviðum fótboltans og með þessu samstarfi getum við miðað reynslu okkar áfram. Um leið opnum við tækifæri fyrir leikmenn frá Gana til að koma til Íslands og taka þátt í æfingum og keppni," segir Magnús Orri Schram, formaður knattspyrnudeildar KR.
„Á næstu dögum munu fyrstu tveir leikmennirnir koma til KR og það er mikilvægt að við tökum vel á móti þeim og styðjum þá í að taka fyrstu skrefin í nýju landi."
KR gefur þessa tilkynningu út rúmri viku eftir að Vestri tilkynnti opinberlega um nýja akademíu félagsins í Senegal. Senegal og Gana eru bæði í norðvesturhluta Afríku.
06.01.2026 08:30
Vestri opnar akademíu í Senegal
Athugasemdir




