Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 01. nóvember 2019 12:21
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Fréttablaðið 
Kolbeinn sagður hafa gist fangaklefa eftir læti á skemmtistað
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður AIK í Svíþjóð, gisti fangaklefa í vikunni eftir læti á skemmtistað samkvæmt sænskum fjölmiðlum. Fréttablaðið hefur samkvæmt heimildum að um Kolbein hafi verið að ræða.

Expressen sagði frá því í morgun að ónafngreindur leikmaður í sænsku deildinni hefði gist fangaklefa aðfaranótt miðvikudags. Sagt er að leikmaðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis og lent í slagsmálum við öryggisverði.

Fjölmiðillinn hafði samband við stjórnarformann félagsins sem staðfesti að leikmaðurinn hefði gist fangaklefa en sagðist ekki hafa heyrt af því að það væri vegna ofbeldis.

Formaðurinn segir að það stríði gegn gildum félagsins að fara út á lífið og skemmta sér með þessum hætti. Lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar verður um komandi helgi en eftir síðustu umferð var ljóst að AIK ætti ekki lengur möguleika á meistaratitlinum.

Íþróttastjóri félagsins segir að málið sé í skoðun en vill ekkert segja til um hvort leikmaðurinn muni taka þátt í lokaumferðinni á laugardag.

Fljótlega eftir að Expressen birti frétt sína fór nafn Kolbeins á flug á samfélagsmiðlum og Fréttablaðið opinberaði svo að um íslenska landsliðsmanninn væri að ræða.

Kolbeinn hefur skorað tvö mörk í sextán leikjum á tímabilinu fyrir AIK. Hann þarf ekki að kynna fyrir íslenskum fótboltaáhugamönnum en í síðasta mánuði jafnaði hann markamet Eiðs Smára Guðjohnsen fyrir íslenska landsliðið.

Í næstu viku verður opinberaður landsliðshópur Íslands fyrir útileiki gegn Tyrklandi og Moldóvu í undankeppni EM.
Athugasemdir
banner
banner
banner