Langflestir mættu þótt það væri ekki skylda
Víkingur varð Íslandsmeistari í október í þriðja sinn á síðustu fimm árum. Frá því að liðið hóf undirbúningstímabilið 2024 eftir að hafa orðið meistari 2023 fékk leikmannahópurinn takmarkaðan möguleika á því að hvílast því skammt var stórra högga á milli hjá liðinu.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, um fyrirkomulagið á undirbúningstímabilinu til þessa.
Fótbolti.net ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, um fyrirkomulagið á undirbúningstímabilinu til þessa.
Ætla sér langt á næsta tímabili
„Við létum leikmenn vita að þeir yrðu að mæta aftur til æfinga 5. janúar í ljósi þess að frá því að við byrjuðum undirbúningstímabilið fyrir tímabilið 2024 fengum við voða litla pásu út af árangri okkar í Sambandsdeildinni."
„Við fengum þrjár vikur í desember/janúar fyrir ári síðan eftir mjög langt tímabil 2024 og síðan þurftum við að keyra okkur af stað."
„Síðasta undirbúningstímabil var öðruvísi, það var ekki tími til að byggja sig hægt og rólega upp, heldur þurftum við að gíra okkur upp í risaleiki gegn Panathinaikos. Við tók svo tímabilið 2025. Þetta var því stórt og langt tímabil."
„Fyrir mér var mikilvægast að menn myndu finna hungrið til að mæta og tækju gott frí; myndu hvílast líkamlega og andlega til þess að vera tilbúnir í 2026 þar sem markmiðið er að spila langt inn í desember. Við sjáum fyrir okkur langt tímabil, markmiðið að fara aftur í deildarkeppni."
„Við vorum dálítið frjálslegir varðandi að mæta á æfingar, en mér datt í hug að flestir myndu samt mæta og það varð raunin. Við vorum með æfingar í fimm vikur í lok árs og það voru langflestir sem mættu á þær æfingar. Mér fannst að menn gætu fundið það sjálfir hvenær þeir myndu mæta, og eins og ég bjóst við þá mættu flestir."
Elskaði metnaðinn
Gylfi Þór Sigurðsson er 36 ára og var að spila leiki í Bose-bikarnum. Sögur fóru af því að hann hefði verið í essinu sínu og elskað það að spila þá leiki. Hvernig var að sjá eldmóðinn í honum?
„Ég elskaði það, mjög skemmtilegt að sjá. Í síðasta leiknum, á móti Fylki 17. desember, þá ætlaði ég að taka hann út af en þá meiddist Róbert Orri sem átti að spila áfram, þ.a.l. varð Gylfi áfram inni á vellinum. Valdi (Valdimar Þór Ingimundarson) var að sama skapi tekinn út af á 60. mínútu og hann var ekki sáttur með það. Ég elska það að menn eru að pirra sig yfir því að spila ekki meira í Bose-bikarnum 17. desember. Það sýnir gleðina og metnaðinn fyrir því að spila leikina, mikill eldmóður í leikmönnum að spila og bæta sinn leik."
„Það var fínt fyrir Gylfa að taka 90 mínútur, hann var ekki sáttur þegar hann sá að hann átti að fara út af, sem er geggjað. Maður vill sjá að menn gefa allt í þetta og er tilbúnir að leggja svona mikið á sig. Það mikilvægasta fyrir okkur er að viðhalda hungrinu; að vilja vinna meira. Það er það erfiðasta þegar þú ert búinn að vinna deildina. Þetta er gott fyrir framhaldið."
Athugasemdir



