Landsleikur fullnálægt Íslandsmóti
Þann 25. febrúar mætir Ísland liði Mexíkó í vináttuleik ytra. Leikurinn fer fram utan landsleikjaglugga og líklegt að allavega langflestir í íslenska hópnum verði leikmenn úr Bestu deildinni. Mexíkó er að undirbúa sig fyrir HM næsta sumar sem verður haldið í Mexíkó, Kanada og Bandaríkjunum.
Fótbolti.net ræddi við fyrrum landsliðsmanninn Sölva Geir Ottesen um komandi verkefni en hann er í dag þjálfari Íslandsmeistara Víkings og verður að teljast líklegt að nokkrir úr hópnum hans fái kallið í hópinn hjá Arnari Gunnlaugssyni.
Fótbolti.net ræddi við fyrrum landsliðsmanninn Sölva Geir Ottesen um komandi verkefni en hann er í dag þjálfari Íslandsmeistara Víkings og verður að teljast líklegt að nokkrir úr hópnum hans fái kallið í hópinn hjá Arnari Gunnlaugssyni.
„Það verður mjög mikil keyrsla núna eftir áramót, Reykjavíkurmótið byrjar mjög snemma, síðan tekur Lengjubikarinn við og núna er þetta landsleikjahlé komið inn í þann pakka. Við erum líka komnir í úrslit í Bose-bikarnum. Ef við förum í úrslit í Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum þá verður dagskráin helvíti þétt. Maður væri til í að geta stjórnað dálítið sjálfur hvaða leiki þú spilar, eða sett upp sjálfur hvaða andstæðingum þú mætir út frá því hvernig þú vilt spila og hvað þú vilt æfa, en það er víst enginn tími í það því þetta eru allt leikir sem eru negldir niður."
„Að sama skapi þá á eftir að koma í ljós hvaða leikmenn verða valdir, en ég býst fastlega við því að það verði einhverjir leikmenn sem fara frá okkur í þetta verkefni. Þetta er fullnálægt tímabilinu þannig séð, en að sama skapi er þetta tækifæri fyrir þá sem eiga ekki landsleik að ná landsleik. Það er alltaf stór draumur fyrir leikmenn að eiga landsleik," segir Sölvi Geir sem spilaði á sínum tíma 28 landsleiki.
Þetta er í fljótu bragði þá ekki að setja neitt stórkostlegt úr skorðum hjá ykkur?
„Nei. Þetta verður sennilega u.þ.b. heil vika í lok febrúar sem fer í þetta verkefni. Við förum í æfingaferð 6.- 19. mars þannig þetta hittir ekki á þá ferð allavega. Það var samt ekkert rætt við einn eða neinn, þjálfara eða félögin, allavega svo ég viti til, um þennan leik og landsleikjaglugga fyrr en dálítið seint."
„Ef það verða valdir leikmenn úr okkar liði þá er það bara þannig og við tæklum það. Þetta er stórt tækifæri fyrir leikmenn og alltaf stór heiður að vera valinn í landsliðið. Ég myndi ekki standa í vegi fyrir strákum sem vilja fara í þennan leik. Þetta gæti verið tækifæri fyrir leikmenn að komast nær næstu hópnum og ég myndi ekki vilja stoppa það tækifæri."
Leikurinn verður spilaður þegar um sex vikur verða í upphaf Íslandsmótsins. Finnst þér að það ættu nú þegar að vera einhver samskipti við félögin um hvernig þetta verður?
„Já, mér finnst að það ættu allavega að vera smá fyrirvari á þessu; að menn séu í einhvers konar sambandi við félögin varðandi bestu tímasetninguna á þessu. Það væri betra ef það væru meiri samskipti milli félaga og KSÍ með þetta," segir Sölvi.
Athugasemdir


